139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[09:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Frú forseti. Þannig háttar til að ég sit í hv. efnahags- og skattanefnd og las á vefmiðlinum eyjan.is í gær að samkomulag hefði tekist á þingi um afgreiðslu lagafrumvarps um gjaldeyrishöft en það er einmitt frumvarpið sem við ræðum núna.

Ég kannast ekki við slíkt samkomulag enda skilst mér að því hafi ekki verið dreift rafrænt til allra þingmanna og ekki heldur til þeirra sem sitja í hv. efnahags- og skattanefnd. Þar sem það var ekki gert tel ég ástæðu til þess að í þingsölum fari fram umræða um yfirlýsinguna sem fylgdi þessu samkomulagi.

Frú forseti. Þetta er yfirlýsing frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í sjö liðum samkvæmt vefmiðlinum eyjan.is. Nokkrir þessara liða eru málefni sem hv. efnahags- og skattanefnd hefur ekki rætt neitt sérstaklega og ég velti fyrir mér hversu víðtæk samstaða er um einstaka liði, sérstaklega 2. lið þar sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lýsir því yfir að samstaða sé um að greiða þinglega meðferð á frumvarpi um innstæðutryggingakerfi fyrir lok þessa árs.

Frú forseti. Mér þætti vænt um að fá að heyra afstöðu þingflokkanna til þessarar yfirlýsingar og sérstaklega þá 2. lið. Auk þess, frú forseti, er í 6. lið fjallað um atriði sem ég ásamt hv. þm. Þór Saari gerði kröfu um í umræðum í þingsal um frumvarpið, en yfirlýsing hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er ekki alveg í samræmi við þá kröfu. Þar er sagt, með leyfi forseta:

„Efnahags- og viðskiptaráðherra mun skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka til samráðs um mótun gengis- og peningamálastefnu, í samræmi við það fyrirheit um samráð sem gefið var í upphafi árs.“

Frú forseti. Sú krafa sem ég og hv. þm. Þór Saari lögðum fram gekk út á það að láta skoða, ekki bara peningastefnuna og gengisstefnuna heldur jafnframt þá möguleika sem þjóðin hefur varðandi upptöku annars gjaldmiðils. Ég verð því að lýsa yfir vonbrigðum með það að ekkert sé minnst á loforð núverandi ríkisstjórnar um að kostir þjóðarinnar í gjaldmiðilsmálum verði skoðaðir og þætti mér vænt um að fá að vita hvers vegna það var ekki tekið með inn í þessa yfirlýsingu, hver rökin eru önnur en þau að sú tillaga hafi komið frá þingmönnum sem ekki geta beitt fyrir sig styrk þingflokks á þingi.

Frú forseti. Ég heyri að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson iðar í skinninu eftir að fá að svara því sem ég er að spyrja um og ég hlakka til að heyra rök hans fyrir þessu samkomulagi og ekki síst hvers vegna ekki er fjallað á neinn hátt um að skoða ólíka kosti í gjaldmiðilsmálum.

Frú forseti. Ég vil að lokum segja að ég er þeirrar skoðunar að það skipti í sjálfu sér engu máli hversu lengi við lögfestum þessi hertu gjaldeyrishöft á meðan við höfum óbreytta peningastefnu. Óbreytt peningastefna mun þýða að við förum inn í ferli vaxtahækkunar til að tryggja það að útstreymið, sem mun eiga sér stað þegar uppboðsmörkuðum fer fjölgandi, dregur úr getu atvinnulífsins til að fjárfesta og hér mun hefjast enn eitt samdráttartímabilið. Slíkt samdráttartímabil mun ýta undir frekari landflótta og fjármagnsflótta.