139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[09:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að samkomulag tókst um afgreiðslu málsins hér á þingi. Það þýðir ekki að samkomulag hafi tekist um öll atriði þess og þingmenn úr ýmsum flokkum eru ósáttir við ýmis atriði þess. Eðli málamiðlunar af þessu tagi er að þar leitast menn við að koma til móts við sjónarmið sem uppi eru í málinu en það þýðir ekki að hægt sé að mæta hverju og einu sjónarmiði sem í þingsalnum er, enda eru hér 63 þjóðkjörnir fulltrúar.

Ég útiloka alls ekki að það atriði sem hv. þingmaður nefndi kunni að koma til skoðunar síðar á kjörtímabilinu. Málið var tekið til 2. umr. í gær og því miður var ekki unnt að ná í viðkomandi þingmann til þeirrar umræðu og taka hana þá, en sjálfsagt er að hún lýsi sjónarmiðum sínum í dag og við getum þá tekið málið til afgreiðslu síðar í dag. En ég undirstrika að það atriði sem lýtur að valkostum í gjaldmiðilsmálum er eitthvað sem ekki þarf að útiloka, en yfirlýsingin var að öðru leyti kynnt þeim sem höfðu svipaðar áherslur og þingmaðurinn um hvað gera þyrfti í þessum efnum.