139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[09:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Lilju Mósesdóttur að ég hef ekki séð þessa yfirlýsingu heldur. Ég hlustaði á hana í gær en ég man hana ekki frá orði til orðs þannig að ég geti skrifað hana niður. Ég átta mig ekki á henni og veit ekki hvort hún bindur mig á einhvern máta, ég kannast ekkert við þessa yfirlýsingu. En ég veit að gert var samkomulag og það eina sem fólst í því samkomulagi var að tíminn sem lögin eiga að gilda var styttur um tvö ár. Jú, jú, það er ágætt en ekki voðalega mikil breyting því að það er ekki mikið mál og er löngu þekkt að slíkum dagsetningum er breytt í meðförum stjórnvalda framtíðarinnar. Mér finnst því ekki vera veigamikill munur á því hvort gjaldeyrishöftin gildi þetta lengi eða einhver ár lengur. Það breytir engu. Það á að setja lög á og þegar lögin eru sett verða allir voðalega værukærir og rólegir í tíðinni og fara að vinna samkvæmt lögunum. Svo eru gerðar breytingar á þeim þar sem krafist verður enn frekari heimilda til að snuðra ofan í veski manna og um kreditkort og jafnvel fara inn á heimili fólks til að skoða hvað það eigi þar í gjaldeyri. Þetta er bara eðli gjaldeyrishafta.

Eins og ég nefni í gær er þetta eins og ópíum. Sjúklingnum líður kannski vel fyrst til að byrja með, þetta verður ávanabindandi og hann getur ekki losað sig út úr því vegna þess að ef menn ætla að aflétta gjaldeyrishöftunum á hvaða tíma sem er þá óttast þeir að gengið falli. Og sá ótti mun ekkert minnka þó að búið sé að setja slíkt í lög. Það verður þyngra að afnema höftin og mjög litlar líkur á að slíkt verði nokkurn tíma aflagt. Siðrofið mun aukast eins og ég hef margoft nefnt sem er aðalókostur gjaldeyrishafta. Aðalókostur gjaldeyrishafta er sá að menn byrja að svindla og pretta út um allt vegna þess að svo mikil hagnaðarvon er í því að kaupa gjaldeyri, eiga hann, flytja hann út og annað slíkt. Svo koma allir hinir þættirnir sem ég nefndi í gær, ég ætla ekki að fara að endurtaka það allt saman.

Ég er afskaplega lítið sáttur við þetta samkomulag. Hæstv. ríkisstjórn hlýtur að koma sínu fram með meiri hluta sínum. Það er náttúrlega meiri hlutinn, hv. þingmenn sem styðja ríkisstjórnina sem bera ábyrgð á þessu alfarið. Ég mun ekki bera ábyrgð á því og mun greiða atkvæði gegn þessu eins og ég gerði reyndar í gær.

Ég ætla rétt aðeins að fara í gegnum þær breytingartillögur sem liggja fyrir. Tvær breytingartillögur liggja fyrir frá hv. þm. Helga Hjörvar. Ég skil þær ekki. Hann er að breyta sömu greinum sem eru örstuttar, 7. og 8. gr. er hann að breyta í tvígang í þessum breytingartillögum. Hvort þetta eru mistök, það kom ekki fram í máli hv. þingmanns að fyrri breytingartillagan hafi verið mistök, en ég vildi gjarnan fá skýringu á því, frú forseti, hvað þetta þýðir. Maður þarf í rauninni að kafa ofan í upprunalegan lagatexta til að átta sig á hvað er verið að gera og mér hefur ekki unnist tími til þess í morgun, eða eftir að seinni breytingartillagan kom fram, að átta mig á því hvað er að gerast.

Svo er ég með breytingartillögu líka sem ég ætla að láta ganga til atkvæða þó að ég viti að hún sé í andstöðu við samkomulagið. En ég ætla að gera síðustu tilraun til að fá hv. þingmenn til að taka sönsum og beita skynsemi og reyna af alefli að koma þessum gjaldeyrishöftum frá.

Ég átta mig á því að til þess þarf ákveðna stefnu. Ég treysti eiginlega ekki ríkisstjórninni til að koma með einhverja stefnu. Hún hefur ekki haft neina stefnu hingað til í neinum málum nema að koma Íslandi inn í Evrópusambandið og þá á allt að vera í lagi, þ.e. helmingur stjórnarliða. Hinn helmingurinn, ég veit ekki almennilega hvaða stefnu hann hefur en hann ætlar sko ekki inn í Evrópusambandið, það er alveg á hreinu. Ríkisstjórnin er því með tvær stefnur og meðan svo er er ekki nein von til þess að menn öðlist trú á genginu og gjaldeyrinum fyrir utan það að sá ráðherra sem á að vernda gjaldeyrinn, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, er stöðugt að tala hann niður og segir að hann sé svo veikburða að hann þurfi gjaldeyrishöft sem verði ekki aflétt í bráð. Það segir hann í erlendum fjölmiðlum til að minnka trúna á gjaldmiðilinn. En auðvitað eru gjaldeyrishöft ekkert annað en vantraust á gjaldmiðilinn og halda gengi niðri, það er bara þannig. Ég held að raungengi krónunnar og það allt saman sé þegar orðið það lágt að það geti varla orðið miklu lægra. Ef gjaldeyrishöftunum yrði aflétt mundi krónan ekki gera neitt annað en standa í stað eða hækka. Það er mín trú.

Breytingartillaga mín gengur út á það að öll ákvæði frumvarpsins séu tekin út og í staðinn komi ákvæði til bráðabirgða um hversu lengi Seðlabankinn hafi heimild til að breyta gjaldeyrishöftum sínum með reglugerðum, það sé framlengt til áramóta. Á þeim tíma ætlast ég til þess að Seðlabankinn, stjórnvöld og Alþingi, hv. efnahags- og skattanefnd, vinni að því að búa til jarðveg þannig að við getum aflétt gjaldeyrishöftunum innan þeirra þriggja mánaða sem ég tala um, þ.e. október, nóvember og desember 2011. Það á að vera nægur tími ef menn taka á honum stóra sínum og fara að vinna. Eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir gat um þarf að sjálfsögðu að endurskoða reglurnar um hvernig gjaldmiðlinum er stýrt hjá Seðlabankanum. Það þarf að breyta þeim reglum.

Ég held ég hafi þetta ekki miklu lengra, ég ætla ekki að tefja málið. Ég mun greiða atkvæði gegn frumvarpinu, eins og ég gerði í gær, og gegn öllum breytingartillögum nema minni, sem ég vona að hv. þingmenn samþykki, og þá mun ég að sjálfsögðu greiða atkvæði með frumvarpinu þannig breyttu en ef það næst ekki fram þá mun ég greiða atkvæði gegn því.