139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[10:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum á tveimur þingskjölum sem bera þau ágætu númer 1954 og 1955.

Ég vil í upphafi þakka hinum vísu þingfeðrum — þingmæður voru því miður ekki til fyrr en á 3. og 4. áratug 20. aldar – fyrir að hafa stofnað til 3. umr. um lagafrumvörp því að við 3. umr. má færa í lag ýmislegt sem getur riðlast í hita leiksins í hinum fyrri umræðum. Svo er um þau frumvörp tvö sem við erum að fjalla um og ætlum að nota til að ljúka lögleiðingu Árósasamningsins frá 1998. Menn muna að hér var gert samkomulag í síðustu viku og nú er unnið á grundvelli þess.

Breytingartillögurnar sem ég flyt fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar í samráði við minni hlutann eru þessar á fyrrnefndum þingskjölum:

Í fyrsta lagi við mál 709. Þar féll út vegna handvammar skilgreining þeirra stjórnvaldsákvarðana sem almannasamtök geta kært, sem eru nákvæmlega sömu ákvarðanir og voru í upphaflega frumvarpinu og voru þá kæranlegar með actio popularis-reglunni. Nú hefur það breyst en skilgreiningarnar eru sumsé samar þar inni.

Í öðru lagi hefur skilgreiningu eins af þessum þremur flokkum stjórnvaldsákvarðana, ákvörðunum samkvæmt b-lið, verið breytt eða við leggjum til að henni verði breytt til samræmis við ákvæði skipulagslaga. Við skoðun hjá fagmönnum kom í ljós að annars hefði sú skilgreining þrengst frá því sem áður var gert ráð fyrir í lögbókinni sem sannarlega væri í mishljómi við anda Árósasamningsins.

Í þriðja lagi í sama frumvarpi leggjum við til að lýsingu á umhverfis-, útivistar- og hagsmunasamtökum verði breytt og út tekið skilyrði um varnarþing á Íslandi. Þetta er gert í samræmi við 3. gr. Árósasamningsins en þar stendur þetta í 9. lið, með leyfi forseta:

„Innan marka viðeigandi ákvæða þessa samnings skal almenningur hafa aðgang að upplýsingum, hafa möguleika á að taka þátt í ákvarðanatöku og hafa aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum án mismununar hvað varðar ríkisfang, þjóðerni eða heimkynni, og hvað viðkemur lögpersónu án mismununar vegna þess hvar hún hefur skráð aðsetur sitt eða raunverulega miðstöð aðgerða sinna.“

Fræðimenn á sviði umhverfisréttar telja að ákvæði um varnarþing væri á skjön við þessa grunnreglu samningsins og þótt hugsanlega mætti verja slíkt ákvæði frá einörðum sjónarhóli forms væri með því verið að sniðganga skuldbindingar okkar samkvæmt samningunum. Ég nefni hér til hina ágætu lögfræðinga Aðalheiði Jóhannsdóttur og Kristínu Haraldsdóttur. Það er ástæða til að fara yfir það, bæði í næstu nefnd umhverfismála hér á Alþingi og í umhverfisráðuneytinu. Ég beini meðal annars því til hæstv. umhverfisráðherra hver sú skilgreining skuli vera á útivistar- og umhverfissamtökum í öðrum lögum á umhverfissviði, í skipulagslögum, í tvennum lögum um mat á umhverfisáhrifum, í náttúruverndarlögum sem nú eru í endurskoðun og í lögunum um Vatnajökulsþjóðgarð. Það er eðlilegt að samræmi ríki í allri þessari löggjöf.

Í fjórða lagi legg ég til þá breytingu á frumvarpi sem hefur númerið 708 hér á þingi, sem er í bandormslíki, að þar falli út kafli þar sem til stóð að breyta hinum góðu vatnalögum frá 1923, sem við erum nú að samþykkja aftur í breyttri mynd, en haganlegra er að gera hinar nauðsynlegu breytingar í þeim lögum í staðinn fyrir að gera það í þessum. Þær felast í því að svipað og í bandormsfrumvarpinu á ekki lengur að kæra til ráðherra heldur á að kæra til hinnar nýju úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem við stofnum um leið og við samþykkjum þetta frumvarp. Viðkomandi kafli sem er sá fimmti í 3. lið er því felldur brott úr þessu frumvarpi samkvæmt tillögu minni en bætist sumsé í vatnalögin síðar í dag, vonandi, eins og hv. formaður iðnaðarnefndar gerir nánari grein fyrir þegar þar að kemur.

Í fimmta lagi kemur það vel á vondan að hér er að lokum flutt málfræðileg breytingartillaga um hárrétt kyn fornafna en þannig er að á allri vegferð þessa máls í ráðuneytinu, hjá ráðgjöfum þess og í umsagnarferlinu hjá fjölmörgum stofnunum og samtökum, í umræðum á þingi og við vinnu hv. umhverfisnefndar tók enginn eftir því að þegar orðið ráðherra vék fyrir orðinu úrskurðarnefnd breyttist um leið kyn meginorðsins í ýmsum köflum frumvarpsins og fornöfnin sem til þess vísa stóðu eftir í sinni karllegu gerð í staðinn fyrir að umbreytast í kvenlega mynd. Nú er þetta lagað með þessari tillögu: Hann, ráðherrann, verður hún, úrskurðarnefndin.

Að auki koma svo nokkrar lagatæknilegar breytingar að ráði ágætra starfsmanna á nefndasviði og í ráðuneyti umhverfismála.

Þá er breytingartillögunum lýst og þá er að taka fram að áðurnefnt samkomulag um ákveðna þætti tryggir framgöngu málsins en er auðvitað ekki skuldbinding um fulla samstöðu í atkvæðagreiðslunni. Í sjálfu sér er sátt um málsmeðferðina en ekki endilega fullur friður um málið. Allt er þetta í góðu, eins og sagt var á Bergstaðastrætinu þegar ég var yngri.

Ég þakka enn á ný samstarfið í nefndinni um þetta mál og önnur, jafnvel málið um umhverfisábyrgðina sem var minnst á hér áðan og verður afgreitt væntanlega á næsta þingi, og ekki síður góðan anda í viðræðum þeirra sem standa að þessu samkomulagi. Á engan hygg ég hallað þótt ég nefni þar sérstaklega hv. þm. Birgi Ármannsson.

Forseti. Ég ætla að bæta þessu við í lokin í tilefni af fyrirspurn frá þeim Guðmundi Herði Guðmundssyni og Helgu Ögmundsdóttur sem eru stjórnarmenn í Landvernd og Guðmundur Hörður þar formaður. Þau sendu mér bréf sem formanni umhverfisnefndar og fögnuðu góðum gangi málsins í þinginu en spurðu í tilefni breytinganna eftir 2. umr. Ég ætla að lesa kafla úr því bréfi, með leyfi forseta:

„Við viljum vekja athygli á að mörg af þeim málum sem koma upp á sviði náttúru- og umhverfisverndar eru staðbundin og fanga einungis athygli lítils hluta samfélagsins. Á Íslandi hafa lítil félagasamtök og óformlegir hópar gegnt veigamiklu hlutverki í náttúruvernd, ekki síst vegna fámennis og strjálbýlis landsins. Við teljum því mikilvægt að frumvarp um fullgildingu Árósasamningsins færi ekki bara fjölmennum og rótgrónum félögum og samtökum málskotsrétt. Gæta verður að því að lítil og óformleg félög njóti sama réttar. Við óttumst t.d. að skilyrði um að reikningar félaga verði að hafa verið staðfestir af löggiltum endurskoðanda muni gera það að verkum að lítil samtök muni ekki njóta málskotsréttar samkvæmt Árósasamningnum.

Í ljósi þessa óskum við eftir skýringu á því hvað felst í þeim skilyrðum sem umhverfis- og náttúruverndarsamtök þurfa að uppfylla til að hafa málskotsrétt samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi um staðfestingu Árósasamningsins.“

Því er til að svara að sams konar klausa er í öllum eða velflestum þeirra umhverfislaga sem ég nefndi áðan, þ.e. ákvæði um endurskoðað bókhald. Í stjórnsýslunni hefur þetta eftir mínum heimildum verið túlkað þannig að samtök af þessu tagi þurfi að hafa skipulegt bókhald sem kemur fram í ársreikningum sem eru samþykktir á árlegum aðalfundi og félagslegir skoðunarmenn, eins og það heitir núna, árita. Ekki sé gerð krafa um að atvinnuendurskoðendur eða bókhaldsfyrirtæki hafi komið sérstaklega nærri. Það er auðvitað ekki verra en kostar verulegt fé sem í samtökum af þessu tagi er alla jafna betur varið til annars, til félagsstarfs og sérfræðiaðstoðar. Þetta er í samræmi við minn skilning á þessu ákvæði.

Forseti. Ég held að nú séu allar forsendur fyrir því að 3. umr. gangi greiðlega og atkvæðagreiðslan verði heldur ánægjuleg og lýk ég nú máli mínu.