139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[10:21]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Það er ekki svo að ég leggist gegn þeirri úrskurðarnefnd sem hér er lagt til að sett verði á stofn heldur vil ég fjalla almennt um úrskurðarnefndir. Ég er þeirrar skoðunar að fækka eigi þeim verulega. Það eigi að fela dómstólum með sérfróðum meðdómsmönnum að taka við kærum slíkra aðila.

Ég spurðist fyrir um það á þingi árið 2004 hversu margar úrskurðarnefndir væru starfandi í landinu og mig minnir að þá hafi þær verið 42, það eru átta ár síðan. Kostnaður við þessar nefndir var um 500 millj. Meginrök fyrir því að setja á stofn slíkar úrskurðarnefndir voru þau að dómstólar væru ekki nógu skilvirkir, það væri hægagangur í dómskerfinu og þar fram eftir götunum. Það er hins vegar rangt vegna þess að eftir að gerðar voru breytingar á dómstólum árið 1991 og 1992 þá urðu dómstólar mjög skilvirkir. Það tekur ekki nema eitt og hálft til tvö ár að fara með mál gegnum héraðsdóm og Hæstarétt. Hins vegar eru ýmsar af þessum fjölmörgu úrskurðarnefndum afar seinar í störfum sínum. Þær eru langt í frá eins skilvirkar og dómstólarnir og kostnaður við þær á síðasta ári fór ábyggilega yfir milljarð.

Til úrskurðarnefnda er kært frá lægra stjórnvaldi og það gerist margsinnis, þá á ég sérstaklega við áfrýjunarnefnd samkeppnismála og fleiri, að úrskurðirnir ganga til dómstóla og sæta þar meðferð á tveimur dómstigum. Það er einn allsherjartvíverknaður. Ég hef ekki sagt að ég vilji leggja af allar úrskurðarnefndir en ég vil fara í allsherjarhreinsun á þeim. Sumar þeirra eiga rétt á sér eins og yfirskattanefnd og fleiri og jafnvel sú nefnd sem hér er mælt fyrir vegna séreðlis málanna, en ég hygg engu að síður að skoða skuli hvort ekki eigi að vera unnt að kæra úrskurði, við skulum segja skipulagsyfirvalda eða í öðrum málum, beint til dómstóla og að dómstóllinn sé þá skipaður sérfróðum meðdómsmönnum að þörfum, sem bein heimild er til. Mér finnst það undarlegt verklag að heil úrskurðarnefnd sé í eitt til tvö ár, jafnvel þrjú ár eða lengur, að klára mál sem síðan fer í þennan tvíverknað, til dómstóla með ærnum tilkostnaði. Það er betra að styrkja dómstólana og hafa kæruréttinn beint til þeirra. Til eru fordæmi um það vegna þess að niðurstöður sýslumanna um gjaldþrot, fjárnám og sitthvað fleira eru kæranlegar beint til dómstóla. Það gengur mjög hratt og málin tekin hratt og örugglega fyrir eftir kæru og Hæstiréttur afgreiðir slíkar kærur, sé þeim skotið til hans, á mjög skömmum tíma, þremur til sex mánuðum. Ég hygg að skilvirknin yrði betri og hin faglega meðferð, fyrir dómstólum. Þar búum við við gagnsæ réttarfarslög og leikreglur sem menn eru mjög sáttir við.

Ég hygg að Alþingi ætti á komandi vetri að íhuga að taka upp hreinsun á úrskurðarnefndum — það eru til alls konar úrskurðarnefndir á ótrúlegustu sviðum — og huga að því að opna fyrir kærurétt beint til dómstóla, svipað og gildir um niðurstöður sýslumanna í málum er varða aðför, gjaldþrot og sitthvað fleira í þeim dúr. Það mundi styrkja dómstólana. Þeir eru alveg færir um að fjalla um þessi mál eftir leikreglum sem eru fyllilega kunnar og ég hygg að með því gætu sparast umtalsverðar fjárhæðir, jafnvel hundruð milljóna.

Í vissum sértilvikum er réttlætanlegt að vera með úrskurðarnefndir. Ég hef ekki skoðað það nákvæmlega en það kann vel að vera að svo sé í þessu tilviki í skipulagsmálunum en reynslan af áfrýjunarnefnd samkeppnismála er allt önnur. Hún er slík að þau mál, sérstaklega hin stærri, fara rakleiðis til dómstólanna. Þau eru fyrst afgreidd af ráðherra eða Samkeppnisstofnun, síðan fer málið í áfrýjunarnefnd, síðan í héraðsdóm og þar er málsmeðferðin er endurtekin öll upp á nýjan leik, sama málsmeðferð og fór fram í áfrýjunarnefndinni. Auk þess er það svo með fjölmargar áfrýjunarnefndir og úrskurðarnefndir að engar leikreglur gilda um þær. Það á ekki við í þessu tilviki því hér eru settar leikreglur sem er mjög til bóta, en um fjölda úrskurðarnefnda gilda engar leikreglur. Þegar maður skilar inn skriflegum gögnum þá eru ekki opin þinghöld eða neitt slíkt þannig að það skapar óvissu.

Þessu vildi ég koma á framfæri að gefnu tilefni án þess að ég sé að leggjast gegn þessari úrskurðarnefnd. En þetta er mikið íhugunarefni fyrir þingið. Styrkjum dómstólana, hreinsum burt úrskurðarnefndir.