139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[10:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa almennu athugasemd og tek undir hana á minn hátt, að vert væri fyrir þingið að athuga þetta og taka hugsanlega til í þessum nefndum. Á hinn bóginn held ég að við séum hér að stíga framfaraskref og að það væri ekki ráðlegt, að minnsta kosti ekki nema að vandlega athuguðu máli, að fara aðra leið í þeim efnum sem þessi frumvörp fjalla um en þessa stjórnsýsluleið og koma upp úrskurðarnefnd. Við höfum reynt að búa vel um úrskurðarnefndina og hafa jafnvel betri aðbúnað um hana en þó var gert ráð fyrir í frumvarpinu og í nefndaráliti fyrir 2. umr. lögðum við sérstaka áherslu á að þess yrði gætt við skiptin frá gamla kerfinu og til þess nýja að málin kláruðust og úrskurðarnefndin gæti byrjað með hreint borð.

Við eigum hins vegar eftir að sjá hvernig hún reynist, þessi nýja sjö manna úrskurðarnefnd sem getur skipt sér í nokkrar deildir, í fimm menn og þrjá og jafnvel í einn. Fyrir nefndina skiptir mjög miklu að málshraðinn verði nægur til að ekki skapist sú óánægja sem t.d. er mjög grasserandi og áberandi í kringum úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál, þó að enginn efist um góðan vilja þeirra sem þar sitja og einkum formannsins, sem væntanlega verður líka formaður í þessari nefnd.

Þá er rétt að segja í lokin að eitt framfaraskrefið er að fimm kæruleiðir sameinast nú í eina. Í þessa nefnd sameinast úrskurðarnefnd (Forseti hringir.) skipulags- og byggingarmála, hollustuhátta og mengunarvarna og úrskurðir sem áður voru bornir fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, iðnaðarráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu. Það verður athyglisvert að sjá hvernig þessi tilraun gefst.