139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[10:30]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað skiptir málshraðinn verulega miklu máli og það er til bóta að verið sé að sameina úrskurðarnefndir í umhverfismálum. En ég leyfi mér að efast um málshraðann oft í þessum nefndum.

Til að nefna dæmi, hv. þm. Mörður Árnason, um ágreining í umhverfismálum, vil ég nefna deilur sem stóðu um Kárahnjúkavirkjun. Þar úrskurðaði Skipulagsstofnun gegn virkjuninni vegna verulegra umhverfisáhrifa. Það var á þeim tíma kæranlegt til umhverfisráðherra, ég veit að hv. þingmaður þekkir þetta. Ráðherra sneri við úrskurðinum eftir að hafa snúið við skoðunum ýmissa stofnana, ef ég má orða það þannig. Eftir töluverðan tíma og töluverða málsmeðferð, ég held að það hafi liðið tvö ár eða tvö og hálft ár frá því að kærur bárust fyrst til Skipulagsstofnunar enda málið umsvifamikið, fór úrskurður ráðherra síðan til dómstóla og var flutt í héraði og í Hæstarétti. Þar liðu enn tvö ár.

Svipað gilti um byggingu álversins í Reyðarfirði. Það mál fór í gegnum kærumeðferð, í gegnum héraðsdóm og Hæstarétt. Loksins þegar niðurstaða Hæstaréttar kom, sem var andstæð að hluta til virkjunarframkvæmdunum vegna mengunarmála, var of seint að snúa við. Þá var framkvæmdin komin vel á veg og svo langt að ekki var hægt að snúa við. Það voru mér mikil vonbrigði að dómur Hæstaréttar, sigur Hjörleifs Guttormssonar í því máli, varð að engu vegna málshraðans, sem ég heyrði reyndar að hv. þm. Mörður Árnason hefur réttilega áhyggjur af.