139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[10:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi koma upp til að taka undir hin almennu ummæli sem komu fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar varðandi úrskurðarnefndir. Það fyrirkomulag sem við búum víða við í stjórnsýslunni, að mál gangi til úrskurðarnefnda með mismunandi hætti, þarfnast endurskoðunar. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að úrskurðarnefndum almennt hefur fjölgað verulega á undanförnum árum og kannski svolítið stefnulaust og tilviljanakennt hvar úrskurðarnefndir hafa verið settar á fót og hvar ekki. Ég tek almennt séð undir þessi sjónarmið.

Ég held að þarna sé á ferðinni verkefni sem löggjafinn þarf að skoða, að hvaða leyti rétt er að fella niður úrskurðarnefndir og beina málum til dómstóla. Eins er líka rétt að athuga það sjónarmið sem hefur komið fram í umræðunni. Þar sem við höfum sannfæringu fyrir því að úrskurðarnefnd sé skynsamleg niðurstaða, verðum við að búa þannig að nefndunum að þær geti sinnt hlutverki sínu og skilað af sér niðurstöðum á viðunandi tíma. Það er auðvitað vandamál, eins og kom fram í andsvari hv. þm. Marðar Árnasonar, að á ákveðnum sviðum eins og þeim sem við erum m.a. að fjalla um í þessu frumvarpi, hefur verið vandamál að úrskurðarnefndir hafa trúlega ekki haft fjármuni og mannafla til að ráða almennilega við málafjöldann sem hefur verið við að glíma.