139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[10:34]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um þennan þátt málsins. Eftir að ég spurðist fyrir um úrskurðarnefndir, fjölda þeirra og kostnað árið 2004, var haldinn fundur á Hótel Sögu þar sem mættu sérfræðingar í lögfræði, dómarar og fleiri og það var samdóma álit þeirra að þau rök að baki úrskurðarnefndum sem sett eru fram þegar slíkum nefndum er komið á fót, séu öll farin — skilvirknin, hagkvæmnin og allt. Að mínu mati á því að fara í hreinsun og fella út allar úrskurðarnefndir nema þær sem sértæk, sterk rök mæla fyrir um að starfi áfram. Þar get ég fallist á yfirskattanefnd.

Það mun koma í ljósi með reynslunni hvað mun gerast með þessa nýju úrskurðarnefnd en sporin hræða varðandi úrskurðarnefnd í skipulagsmálum. Mál þar hafa tekið allt of langan tíma. Þetta er mjög góð nefnd, hún hefur skilað ágætisúrskurðum og annað slíkt, en hún hefur verið fjársvelt og málshraði þar er ekki sæmandi í svona málum sem taka verður hratt og örugglega á.