139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[10:40]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér vatnalög. Það er eitt atriði í þeim sem mér finnst nauðsynlegt að tæpa á og ég náði ekki að gera við 2. umr. málsins vegna þeirra anna sem hafa verið í þinginu og vegna þess hversu fá við erum í Hreyfingunni. Athugasemdir mínar snúa fyrst og fremst að 17. gr. frumvarpsins sem snýr að framsali afnotaréttar á vatni en í 3. mgr. 17. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu, sbr. 2. mgr., er heimilt að veita tímabundið afnotarétt að réttindum skv. 1. mgr. til allt að 65 ára í senn. Handhafi tímabundins afnotaréttar skal eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn.“

Í breytingartillögum frá iðnaðarnefnd við þessa grein kemur fram í 7. tölulið, með leyfi forseta:

„Við 1. málsl. 3. efnismgr. 17. gr. bætist: til allt að 65 ára í senn.“

Það þýðir að það er verið að gefa heimild til þess að leigja megi afnotarétt af vatni til 65 ára í senn. Þetta er að mínu mati og okkar í Hreyfingunni mjög varasamt skref að stíga. Þó að í frumvarpinu sjálfu sé ekki gert ráð fyrir neinum tímaramma opnar svona tiltekinn árafjöldi einhvers konar glugga sem hætt er við að verði notaður sem viðmið fyrir aðrar auðlindir og framsal á öðrum auðlindum.

Við vitum að það er mjög vandmeðfarið hvort og þá hvernig framselja á auðlindaréttindi. Það er allt annað umhverfi sem menn eru í þegar verið er að ræða annars vegar vatnsaflsvirkjanir og jarðhitavirkjanir og hins vegar auðlindina í sjónum og þó að hér sé kannski eingöngu átt við vatnsaflsvirkjanir í þessu frumvarpi eru fordæmin sem þetta gæti skapað mjög varasöm. Vatn er náttúrlega eitt af mikilvægustu náttúruefnum sem til eru í veröldinni og við hefðum talið að það hefði þurft að ræða þennan tímaramma á framsali auðlindar heildstætt í samræmi við aðrar auðlindir og hvort það ætti yfir höfuð að vera heimilt að framselja svona mikilvæg réttindi því að svona framsal getur boðið upp á svo mikla misnotkun. Þetta snýst um hugsanlegan afskriftatíma virkjana, afskriftatíma jarðhitavirkjana, afskriftatíma fiskibáta og togara. Þetta snýst um hvað menn gera við auðlindina þegar þeir eru að renna út á tíma með afnotaréttarsamninginn, hvort þeir arðræna hana alveg í botn í lok leigutímans. Og enda þótt iðnaðarnefnd hafi rætt og farið mjög ítarlega yfir þessi mál að sögn hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur, fulltrúa Hreyfingarinnar í nefndinni, finnst okkur engu að síður að verið sé að stíga of afgerandi skref. Því hefur hv. þm. Margrét Tryggvadóttir lagt fram eftirfarandi breytingartillögu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í stað 3.–5. efnismgr. 17. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:

Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu, sbr. 2. mgr., er óheimilt að veita afnotarétt að réttindum skv. 1. mgr., hvort sem um er að ræða tímabundinn eða ótímabundinn afnotarétt.“

Við setjum þessa tillögu fram vegna þess að um leið og farið er að framselja þessi mikilvægu réttindi eins og ég tæpti á áðan eru menn komnir inn á talsvert slæmt jarðsprengjusvæði. Við höfum sem dæmi umræðuna um Magma nýverið, um hvað Magma Energy má og á að nýta jarðhitaréttindi á Reykjanesi í langan tíma og hvað verði um þær virkjanir í lok afnotatímans, hvernig viðhaldið á þeim verði o.fl. Að okkar mati þarfnast slík auðlindaákvæði eins og fram koma í breytingartillögu meiri hlutans einfaldlega meiri umhugsunar og meiri vinnu og ættu því ekki að vera í þessum lögum með öðrum hætti en fram kemur í breytingartillögunni sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur lagt fram og kemur til atkvæðagreiðslu síðar í dag þegar þessi lög verða frágengin.