139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[10:58]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er hárrétt að málið var tekið fyrir 7. apríl. Nefndin leitaði umsagna á hefðbundinn hátt og annað slíkt. Síðan verður viðsnúningur í málinu. Það koma upp hugmyndir um að fella burt 2. gr. sem var að vísu ekki aðalatriði þessa frumvarps, heldur var það 1. gr. Í kjölfarið ákvað nefndin að kynna fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þá gagnrýni sem hafði komið fram á 2. gr. og setja málið í þessa vinnslu. Það var gert en það var ekkert gert með tillögur ráðuneytisins og ráðuneytinu var ekki gefinn kostur á að skýra þær og hagsmunaaðilum, þ.e. fyrst og fremst Landssambandi smábátaeigenda, var ekki heldur gefinn kostur á að koma fram með sín sjónarmið. Málið var því ekki fullrætt og fullafgreitt málefnalega séð. Það er það sem ég er að gagnrýna. Ég er ekki að gagnrýna málsmeðferðina á undan. Ég er að gagnrýna það sem gerist á þessum stutta morgunfundi að málið er tekið út fyrirvaralaust.

Eflaust er hægt að haga þessu með öðrum hætti, með frjálsum samningum og annað slíkt. Ég er hlynntur því að félagsgjöld geti verið tekin af svo fremi að það brjóti ekki í bága við félagafrelsi stjórnarskrárinnar. Það gera ákveðin félagsgjöld ekki eins og til dæmis iðgjöld til stéttarfélaga samkvæmt kjarasamningum. Það er talið samrýmast stjórnarskránni fullkomlega og reyndar er það tekið fram í greinargerð með þeim breytingum sem voru gerðar á félagafrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar 1994 eða 1995 að sú innheimta samrýmdist þessu. Ég er fyrst og fremst að hugsa um að létta þessum samtökum innheimtuna vegna þess mikilsverða hlutverks sem þau gegna, þau samtök sem ég ræði um hér.