139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[11:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma inn í þessa umræðu um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Það lýtur að því, eins og hér hefur verið rakið, hvernig háttað er ákveðinni innheimtu á félagsgjöldum án þess þó að farið sé á svig við 71. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og rétt til að standa utan félaga.

Ég ætla ekki að fara í neinu máli yfir þetta, ég gerði það við 1. umr., en ég tel mjög mikilvægt að það sé reynt að ná sátt í þessu máli milli aðila þannig að hægt sé að standa að baki félagasamtaka eins og hér er verið að tala um í að innheimta félagsgjöld og tryggja þar með örugga starfsemi viðkomandi félaga. Að sjálfsögðu leggur ráðherra fram málið og síðan hefst þingleg meðferð þess og þingið leggur til breytingar og síðan er málið afgreitt á Alþingi eftir því hver meiri hlutinn verður á hverjum tíma. Það er í hæsta máta eðlilegt.

En ég legg áherslu á ef nokkur kostur er að þetta mál megi vinnast í þeim anda sem hv. þm. Atli Gíslason rakti og hvet til þess að svo verði. Ég lýsi því jafnframt yfir að ég styð breytingartillögu sem hv. þm. Atli Gíslason lagði fram í málinu. Ég tek afdráttarlaust undir sjónarmið hv. þingmanns um að þetta er mikilvægt mál og skiptir miklu að góð og farsæl niðurstaða fáist í því fyrir þá aðila sem eiga hlut að máli og er mikið í húfi. Þetta var það sem ég vildi segja, herra forseti. Ég ítreka að ég tek heils hugar undir málflutning hv. þm. Atla Gíslasonar í þessu máli.