139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[11:16]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér við 3. umr. koma þær breytingartillögur sem ég boðaði við 2. umr. í gær og lúta fyrst og fremst að því að hækka fjárhæðarmark það sem miðað er við við heimild til að taka út séreignarlífeyrissparnað. Það mark hefur verið 5 millj. í dag en ljóst er að nokkur hópur sem hefur nýtt sér þetta úrræði til að takast á við dagleg útgjöld eða fjárhagserfiðleika eftir atvikum, hefur þegar nýtt 5 millj. kr. heimildina og því er hún hækkuð í 6 millj. 250 þús. Heimild til að sækja um úttekt á séreignarsparnaði allt að 6 millj. 250 þús. verður sem sagt opnuð á ný með frumvarpi þessu 1. október nk. og gildir út júnímánuð á næsta ári. Þá getur fólk tekið út á 15 mánaða tímabili um 416 þús. kr. á mánuði, eigi það slíkar innstæður á séreignarsparnaðarreikningum.