139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

greiðsluþjónusta.

673. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti, Já, ég held að þetta gæti orðið mjög athyglisverð umræða. Það er áhugavert fyrir t.d. viðskiptanefnd eða velferðarnefnd hins nýja þings að ræða það sérstaklega með hvaða hætti staðið er skil á kostnaði og gjöldum hvað snertir kreditkort, debetkort, seðla o.s.frv. og hvar kostnaðurinn kemur fram og hvort hentugt sé að láta raunkostnað kerfisins ekki koma fram við notkun.

Ég held að við hv. þingmaður séum þá sammála um að það sé hentugasta kerfið til að leiða til framþróunar að fólk átti sig á því hver borgar á endanum og með hvaða hætti því að að sjálfsögðu eru neytendur að greiða fyrir það ef seljendur vöru og þjónustu taka á sig fjármagnskostnað. (PHB: Það borga allir.) Við borgum öll en ekki bara þeir sem kaupa tiltekna vöru. Í raun eru neytendur í heild að borga fyrir aukinn fjármagnskostnað verslunar í landinu. Það er þess vegna spurning hvort ekki væri hægt að búa til sterkari hvata í kerfinu þannig að fólk sæi sér hag í því að staðgreiða vöru með seðlum eða debetkorti þannig að við frestuðum ekki greiðslum um 30 daga. Smátt og smátt höfum við Íslendingar vanist á þetta kerfi og væntanlega verður erfitt fyrir okkur að vinda ofan af því en við hljótum að vilja skoða það hvort við ættum ekki að færa kostnaðinn þangað sem hann á heima til að við áttum okkur betur á því hver hann er og hvernig við getum brugðist við honum.