139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[12:36]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við göngum nú til atkvæða um frumvarp til nýrra sveitarstjórnarlaga. Ég er mjög sáttur við þá vinnu sem fram hefur farið við þetta frumvarp og er sammála því og einnig þeim breytingartillögum sem hv. samgöngunefnd flytur og ég á aðild að.

Ég vil hins vegar geta þess að það er ein breytingartillaga við 11. gr. frá hv. þm. Merði Árnasyni sem ég get með engu móti fellt mig við en hún gengur út á það að Reykjavík búi áfram við algera sérstöðu og lýðræðishalla varðandi fjölda fulltrúa í sveitarstjórn.

Þannig háttar til að fjöldi íbúa á kjörinn fulltrúa í Reykjavík er núna um 8 þúsund á meðan sú tala fer hvergi yfir 2.700 og á Alþingi eru 5 þúsund íbúar á bak við hvern kjörinn fulltrúa. Þetta er algert einsdæmi í veröldinni að svo skuli búið um í stærsta sveitarfélagi landsins. Ég tel að hér sé mikill lýðræðishalli á ferðinni. Tillagan eins og hún birtist í frumvarpi innanríkisráðherra er prýðileg og ég legg til að hún verði samþykkt en ekki breytingartillaga Marðar Árnasonar.