139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[12:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið um þetta mál. Sveitarstjórnarstigið er einhver mikilvægasti málaflokkur sem við ræðum á Alþingi og ekki má að gleyma því að hér er um annað helsta stjórnsýslustig landsins að ræða.

Ég vil taka undir þá breytingartillögu sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir nefndi hér og er flutt af henni og hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni. Það er mikilvægt að passa það þegar við setjum lög sem þessi að við ýtum ekki undir eða heimilum að samfélagslegum fyrirtækjum sé hugsanlega ýtt út í einkavæðingu og eitthvað slíkt. Þær breytingartillögur sem nefndin leggur fram við frumvarpið eru klárlega til bóta en ég skora hins vegar á þingmenn að samþykkja þessa breytingartillögu.

Það er mikilvægt að við pössum okkur líka á því, sem ég veit að nefndin mun gera, þegar kemur að því að auka lýðræði til íbúanna að lögbundnir málaflokkar, lögbundnir tekjustofnar geti (Forseti hringir.) ekki farið í atkvæðagreiðslu.