139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[12:52]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það má taka undir margt það sem þingmenn eins og hv. þm. Þór Saari og fleiri segja og leggja til máls með rökstuðningi sínum. En kjarni málsins er sá að ég tek heils hugar undir með flutningsmanni þessarar breytingartillögu um að þetta er málefni borgarstjórnar sjálfrar. Við getum haft afstöðu til þess hvort þetta hafi í för með sér kostnaðarauka eða sparnað, hvort borgarfulltrúar eiga að vera 15 eða 30, 18 eða 25, en það skulum við láta borgarstjórn Reykjavíkur eftir að ákveða sjálfri. Það er gerræðislegt að taka ákvörðun um það hér á Alþingi Íslendinga og taka þannig fram fyrir hendurnar á borgarstjórn — og við getum rætt um það fram eftir degi hvað þeir eigi að vera margir, hvað þetta kosti og hvort þetta spari á embættismannastiginu eða annað. En ég er eindregið á þeirri skoðun að heppilegt sé að samþykkja þessa breytingartillögu og fela borgarstjórn það verkefni að ákveða fjölda borgarfulltrúa sjálf.