139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[13:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þegar þetta frumvarp kom fyrst inn í þingið var í því að finna ótrúlega íþyngjandi ákvæði og í rauninni svo íþyngjandi að það er ekki með góðu móti hægt að rökstyðja slíkt í lýðræðisríki. Það hefur tekið talsverðum breytingum, sérstaklega undanfarna daga í umræðum um þinglok, svo að það er til mikilla muna skárra en það var en ekki er það samt gott.

Aðalatriðið er að mikil vinna þarf að fara fram áfram. Það þarf að nýta tímann miklu betur en hefur verið gert á þeim tíma sem liðinn er frá því að höftin voru fyrst sett á. Lykilatriðið er að til stendur að yfirfara peningamálastefnu landsins frá grunni og að allir flokkar hafi aðkomu að því. Jafnframt mun þurfa að ræða innstæðutryggingamál töluvert til að finna út úr því hvaða leið er rétt að fara í þeim efnum í tengslum við þetta. Á heildina litið er það hins vegar mikið áhyggjuefni að menn skulu vera að leiða í lög (Forseti hringir.) gjaldeyrishöft og vonandi tekst að vinda ofan af því sem fyrst.