139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[13:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er vitanlega slæmt ef verið er að leiða í lög einangrunar- og haftastefnu. Það kann hins vegar að vera mikilvægt að stíga varlega til jarðar en það þarf að fara strax í þá vinnu að leita leiða til að afnema endanlega þessi höft. En einangrunar- og haftastefna er nokkuð sem við viljum ekki taka upp aftur á Íslandi.

Ég vil þó segja, frú forseti, að í yfirlýsingu sem birtist á eyjunni.is og fleiri fjölmiðlum er talað um að samstaða sé um að greiða fyrir þinglegri meðferð máls er lýtur að innstæðutryggingum. Það hlýtur að vera átt við að í þinginu fari samt fram eðlileg umræða um málið því að eftir því sem ég best veit þá er ekki samstaða um að málið fái einhverja sérstaka flýtimeðferð í gegnum þingið. Það er þá eitthvað bogið ef svo er. Þannig að því sé haldið til haga þá þarf að (Forseti hringir.) fara varlega þegar kemur að slíkum yfirlýsingum.