139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[13:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því að með samþykkt frumvarps þessa er Alþingi Íslendinga að stíga enn eitt framfaraskrefið í jafnréttismálum. Með frumvarpinu aukum við völd og áhrif kvenna í stjórnum lífeyrissjóða og bætum þar með í hóp margra laga sem við höfum sett kynjakvóta í til að efla áhrif kvenna í íslensku samfélagi. Ekki veitir af.

Mikilvægt er að benda hv. þingmönnum á að Íslendingar eru ásamt Norðmönnum og Frökkum forgönguþjóðir um það í Evrópu að auka áhrif og völd kvenna í efnahagslífi og atvinnulífi. Er nú mjög farið að horfa til þess víða í löndunum í kringum okkur að lögleiða slíka kvóta enda virðist ganga mjög hægt án beinnar íhlutunar löggjafans að tryggja konum aðgang að þeim stjórnum þar sem ákvarðanir í samfélaginu eru teknar.