139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[13:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú er að koma til afgreiðslu þriðja og síðasta þingmálið sem tengist fullgildingu Árósasamningsins. Í gær var afgreidd þingsályktunartillaga frá hæstv. utanríkisráðherra og hér fá tvö frumvörp frá hæstv. umhverfisráðherra lokaafgreiðslu.

Ég vil á þessum tímamótum fagna þessu sérstaklega. Þetta hefur verið baráttumál okkar Vinstri grænna um langt árabil en það er fyrst með myndun núverandi ríkisstjórnar og þeirra metnaðarfullu stefnu og áherslna í umhverfismálum sem sú stjórn stendur fyrir sem pólitískar forsendur hafa skapast til að ná þessu máli fram. Tilraunir til þess á fyrri árum voru ofurliði bornar af þeim sem þá fóru með völdin í landinu. (Gripið fram í.) Þetta er mikil réttarbót og mikil framför á sviði umhverfisréttar og sérstaklega í þágu almennings og réttinda hans á þessu sviði þannig að almenningur sé virkari þátttakandi í því að passa upp á náttúruna og láti sig hagsmuni hennar varða.