139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[13:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og áður hefur komið fram af minni hálfu í atkvæðaskýringum á fyrri stigum afgreiðslu þessa máls þá er þetta mál áfangi á lengri vegferð við að endurskoða alla vatna- og auðlindalöggjöf Íslands sem er eitt brýnasta verkefni sem Alþingi stendur nú frammi fyrir. Þar er meginhugsunin sú að treysta almannarétt og vinda ofan af einkavæðingunni sem var fest í lög með alræmdum lögum 1998. Með þessum lögum eru núna út úr heiminum lagaómyndin frá 2006, en aðeins að hluta til. Við erum á vegferð og við munum halda áfram á þeirri vegferð.

Andinn í breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur er góður en við teljum engu að síður mörg hver í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hana ekki standast (Forseti hringir.) að öllu leyti og við munum ekki greiða þeirri tillögu atkvæði. (Forseti hringir.) Ég árétta líka þann skilning okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að (Forseti hringir.) 65 ára ráðstöfunarréttur á vatni í 9. gr. frumvarpsins er aðeins hugsaður til bráðabirgða.