139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:05]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þessi breytingartillaga gerir einfaldlega ráð fyrir því að ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu verði óheimilt að veita tímabundinn afnotarétt af réttindum. Við erum að stíga skref í þá átt að framselja vatnsréttindi til 65 ára í senn og það er fyrsta skrefið í átt að stórfelldum einkavæðingum á auðlindum. Þessi breytingartillaga fellir þá heimild úr gildi og úr því að talað hefur verið um að þessi lög verði endurskoðuð strax aftur á næsta þingi, þó að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sé ekki sammála því, er betra að fara í þá vinnu með þessa breytingartillögu samþykkta í frumvarpinu en hitt þar sem menn munu þá vísa til einhvers konar hefðar um 65 ára afnotarétt í jarðhitaréttindum og í fiskveiðiréttindum. Það er vondur staður að vera á fyrir auðlindir Íslendinga.