139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég greiði þessu frumvarpi atkvæði mitt í ljósi þess að hér er um niðurstöðu ákveðinnar nokkuð víðtækrar málamiðlunar og samstöðu að ræða. Með þessu er í rauninni fest í sessi sú réttarskipan sem á hefur verið á þessu sviði frá 1923 og eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom inn á áðan þá þýðir það að bæði réttarreglur og dómafordæmi frá undanförnum áratugum halda gildi sínu að því leyti.

Hvort tilraunir verða gerðar til að gera breytingar á verður auðvitað bara að koma í ljós en í ljósi þess að þetta mál hefur verið mikið deilumál á undanförnum árum finnst mér rétt að taka það fram að ég held að þessi niðurstaða, framlenging réttarástands sem verið hefur fyrir hendi frá 1923, er að mínu mati ásættanleg niðurstaða.