139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[15:35]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú hafa fengist skýringar á því hvers vegna málið um umhverfisábyrgð var tekið út, hvers vegna það er ekki á dagskrá. Það er vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn því.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur getið sér þess til, og því hefur ekki verið mótmælt, að Framsóknarflokkurinn hafi lagst gegn því máli sem hún ræddi hér, mál nr. 13 á síðustu dagskrá, þ.e. skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sem var í fullri umræðu sem í raun var lokið, þó að það hafi ekki verið að formi til í morgun eða gærkvöldi, eða hvernig það nú var. Það mál er dottið út af dagskránni án skýringa á því hver hafi krafist þess eða hvaða ástæður liggi þar að baki. Er það einhver stjórnmálaflokkanna á þingi sem hefur komið því máli út af dagskránni? Hvaða þingflokksformaður krafðist þess að málið færi út af dagskránni og hvers vegna var honum hlýtt?

Málið er, sýnist mér, fullbúið til umræðu og engin ástæða til að fresta því sem komið hefur fram og ég krefst þess að sú afstaða komi fram frá forseta eða einhverjum þeim sem ábyrgur er fyrir málinu.