139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:18]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil geta þess um þá grein sem nú liggur fyrir og þá mynd af 2. gr. að þetta er niðurstaða málamiðlunar sem náðist eftir langa umræðu í þinginu sem var kannski lengri en við hefðum velflest viljað. Grunnur þeirrar sáttar sem náðist í þessu máli kom nokkuð snemma fram, undir síðustu helgi, og hefði verið betra að við hefðum getað sameinast um hana þá strax.

Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur sérstaklega fyrir hennar aðkomu á þeim tímapunkti í þessu máli vegna þess að tillaga hennar var lausnamiðuð. Við hefðum vel getað fellt okkur við hana og lýstum því reyndar yfir. Ég kann vel að meta jafnmálefnaleg vinnubrögð og hún sýndi í þessu máli og vil geta þess sérstaklega og þakka kærlega fyrir það.