139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það mál sem við greiðum nú atkvæði um er dæmi um mál sem sýnir ranga forgangsröðun hjá ríkisstjórninni. Þetta er mál sem enginn er að kalla eftir. Þegar aðalmálin í dag snúa að vanda heimilanna og fyrirtækjanna eða að efnahagsmálum berst ríkisstjórnin fyrir því að færa völd frá þinginu til forsætisráðherra. Það stefndi í það á tímabili að forsætisráðherrann fengi að ráða fjölda ráðuneyta, gæti ráðið jafnframt fjölda ráðherranna, jafnvel sett fleiri en einn í hvert ráðuneyti — það er reyndar búið að fresta gildistöku þess ákvæðis — og forsætisráðherrann gat gert hvort tveggja án þess að eiga nokkurt einasta samráð við þingið. Þetta er dæmigert mál um ranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar en sem betur fer hefur veigamesta atriðinu í þessu frumvarpi verið breytt á þann veg að þingið heldur áfram þeim völdum sem það hefur haft. Það er gríðarlega mikilvæg niðurstaða.

Eftir stendur gallað mál sem ég get ekki stutt.