139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta kom til umræðu í nefndinni og í nefndaráliti er örlítið fjallað um hug nefndarinnar hvað þetta varðar. Það er vissulega rétt að setja þarf um þetta mjög skýrar reglur. Það þarf að liggja ljóst fyrir hverjar reglurnar eru og þá ekki bara þegar tekin er ákvörðun um eitthvert tiltekið mál hverju sinni. Það þurfa að vera skýrt mótaðar reglur bæði í samþykktum sveitarfélagsins og í samskiptum milli sveitarfélaga og ráðuneytis.

Sá hugur var ekki meðal nefndarmanna að nóg væri að setja upp vefsíðu eða hægt væri að safna undirskriftum á tilteknum vefsíðum, með tölvupóstum eða einhverju slíku, nema það væri vel skipulagt og samkvæmt tilteknum reglum þar um. Það skiptir auðvitað engu máli hvort tiltekin íþróttafélög eða önnur félagasamtök gætu staðið að slíku, að safna undirskriftum. Ég reikna ekki með að það verði kannað hvaðan þeir einstaklingar koma sem krefjast kosninga eða hvetja sveitarfélög til að fara í kosningar um tiltekið mál, en þetta var rætt í nefndinni.

Hv. þm. Kristján L. Möller bryddaði upp á afar mikilvægu máli og við hefðum auðvitað átt á landsvísu að vera búin að setja okkur skarpari, skýrari og betri reglur um undirskriftasafnanir en nú tíðkast.

Sveitarfélög hafa mismikla reynslu hvað þetta varðar en þau sveitarfélög eru til sem hafa farið í íbúakosningu um veigamikil mál og hafa þá rekist á að ýmsir ágallar eru í þeirra eigin regluverki hvað þetta varðar. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en slíkar leikreglur varðandi undirskriftasafnanir og framkvæmd kosninga að öðru leyti verði unnar í góðu samstarfi milli innanríkisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, eins og frumvarpið kveður reyndar á um að verði gert.