139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[16:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um frumvarp til sveitarstjórnarlaga. Ástæðan fyrir því að ég geri það á þessum degi og við 3. umr. er sú að við 2. umr. var skipulagningu þingstarfa þannig háttað að fólki með börn var ókleift að koma að þessu máli. Ég þurfti að fara heim til mín í gærkvöldi og sinna fjölskyldu minni og mér þykir miður að þingstörf skulu skipulögð með þeim hætti að barnafólk geti ekki tekið þátt í þeim. Ég mun leitast við að stytta mál mitt eins og ég mögulega get því að ég er óþreyjufullur eins og margir aðrir þingmenn að ljúka þessu þingi en engu að síður þarf að ræða nokkur þessara mála. Ég mun fyrst ræða 11. gr. frumvarpsins, síðan 64. gr. og síðan 107. og 108. gr. frumvarpsins.

Í 11. gr. frumvarpsins er verið að fjalla um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa í sveitarstjórnum. Ég hef litið yfir frumvarpið og þær tölur sem koma fram í 11. gr. þess eru ekki rökstuddar neitt. Það er dapurlegt vegna þess að á síðasta þingi lagði Hreyfingin fram frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem gerði ráð fyrir fjölgun sveitarstjórnarmanna með allt öðrum hætti og miklu meiri fjölgun en gert er í þessu frumvarpi. Í greinargerð með því frumvarpi segir:

Markmið frumvarpsins er að viðmið um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa á Íslandi verði færð til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndunum. Ákvæði 11. gr. sveitarstjórnarlaga í þessu frumvarpi um hámarksfjölda kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum eiga sér hvergi hliðstæðu í Evrópu að því er best er vitað. Til að mynda má benda á ákvæði í sænskum sveitarstjórnarlögum þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda kjörinna fulltrúa í bæjar- og borgarstjórnum. Ákvæði um lágmarksfjölda eru eins eða svipuð og annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu eins og sjá má á vef Evrópuráðsins.

Í janúar 1908 var bæjarfulltrúum í Reykjavík fjölgað í 15. 102 árum síðar eru kjörnir fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur enn 15 að tölu þótt fjöldi íbúa hafi fimmtánfaldast á heilli öld. Frá 1908 hefur landsframleiðsla á hvern íbúa einnig fimmtánfaldast og því má fullyrða að efnahagsleg umsvif í Reykjavík hafi a.m.k. 225-faldast á einni öld.

Frambjóðandi til borgarstjórnar í Reykjavík nú til dags þarf að fá um 8% atkvæða til að ná kjöri og eru engin fordæmi um jafnfáa kjörna fulltrúa og jafnháan lýðræðisþröskuld í ámóta fjölmennu sveitarfélagi í nágrannalöndum okkar. Samkvæmt lögum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar ættu borgarfulltrúar í Reykjavík að vera hið minnsta 43–61.

Hér er um að ræða lýðræðisskerðingu sem stríðir gegn anda Evrópusáttmálans, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og Ríó-sáttmálanum um Staðardagskrá 21 sem er heildaráætlun ríkja Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun samfélaga fram á 21. öldina í samráði við íbúa á hverjum stað. Hún er andstæð viðhorfum og venjum annars staðar á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar þar sem lýðræði er í hávegum haft þar sem meginmarkmið er ekki að torvelda heldur að auðvelda þátttöku borgaranna í ákvarðanatöku um eigin mál og mótun samfélags til framtíðar. [Kliður í þingsal.]

Frú forseti. Gæti ég fengið hljóð í salinn? (Forseti hringir.)

Nær útilokað er fyrir einstaklinga og samtök utan hefðbundinna stjórnmálasamtaka að komast til áhrifa í sveitarstjórnum og ríkir því fákeppni í sveitarstjórnarmálum og fáveldi í stjórnarháttum sveitarstjórna (oligarkí, einhvers staðar á milli einræðis og lýðræðis).

Í borgarstjórn Reykjavíkur og öðrum fámennum íslenskum sveitarfélögum er fáveldið auk þess undirstrikað enn frekar með ranghugmyndinni um þörf á starfhæfum meiri hluta sem veldur því að átta til níu borgarfulltrúar hlaða á sig völdum og vegtyllum á meðan minni hlutinn situr hjá verklítill.

Greinilegt er að miðað við nágrannalöndin er mikill lýðræðishalli hér á landi, eins og kemur fram í því frumvarpi sem við lögðum fram á síðasta þingi, hvað varðar þátttöku almennings og möguleika til áhrifa í sveitarstjórnum og slíkar fámennisstjórnir sem hér hafa tíðkast eru einsdæmi. Vissulega má gefa sér að þetta fyrirkomulag sé einfaldlega barn síns tíma en með gjörbreyttu og stórauknu hlutverki sveitarstjórna sem stjórnsýslustigs verður að gera þá kröfu að almenningur og smærri samtök fái að hafa meiri áhrif á framgang mála. Með fjölgun sveitarstjórnarmanna má einnig gera ráð fyrir að nefndir og ráð sveitarstjórna yrðu skipuð kjörnum fulltrúum en ekki varamönnum eða öðrum liðsmönnum þeirra flokka sem sæti eiga í sveitarstjórninni. Slíkt mundi gera allt ferli við ákvarðanatöku markvissara og ábyrgð kjörinna fulltrúa yrði einnig skýrari. Eins má gera ráð fyrir að krafa um stærri og öflugri sveitarstjórnir mundi enn frekar ýta undir sjálfviljuga sameiningu sveitarfélaga sem nú eru 77 talsins þrátt fyrir umtalsverða fækkun á liðnum árum.

Frú forseti. Með þessu frumvarpi er farið forgörðum gullið tækifæri til mjög brýnna breytinga þó að vissulega séu í frumvarpinu margar ágætisbreytingar. En hvað varðar lýðræðisvæðingu á sveitarstjórnarstigi þá hefur því ekki verið sinnt nægilega vel. Við höfum legíó af dæmum um fámennis- og klíkustjórnmál í sveitarfélögum og það hefur greinilega komið í ljós undanfarin tvö ár að slík fámennis- og klíkustjórnun hefur sett fjölmörg sveitarfélög á Íslandi á hausinn. Aukið aðhald frá fleiri fulltrúum mundi að sjálfsögðu aldrei koma algerlega í veg fyrir misstjórnun í sveitarfélögum en fjölmennið veitir aðhald. Við munum aldrei gleyma því þegar fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík sat heima hjá sér að kvöldi til með örfáum borgarfulltrúum og var að véla um það að selja Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er hægt í höfuðborginni Reykjavík þar sem átta borgarfulltrúar hafa öll völd í 120 þús. manna sveitarfélagi. Þetta er ekki lýðræðislegt, frú forseti, og það er slæmt að fulltrúum í sveitarstjórnum skuli ekki vera fjölgað meira en þetta.

Ég sé fyrir mér þann draum að í borgarstjórn Reykjavíkur eigi t.d. sæti á bilinu 43–61 fulltrúi. Getið þið ímyndað ykkur, hv. þingmenn, hvað yrði gaman að vera Reykvíkingur þegar Árbæingar ættu sína fulltrúa og Vesturbæingar ættu sína fulltrúa og Íbúasamtök Grafarvogs ættu sína fulltrúa og KR-ingar ættu sína fulltrúa og öll þau félagasamtök sem hafa áhuga á því að taka þátt í stefnumótun Reykjavíkurborgar (Forseti hringir.) ættu sína fulltrúa?

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmann að beina máli sínu til forseta úr ræðustóli Alþingis.)

Já, afsakið. Gæti forseti séð fyrir sér slíka borgarstjórn í Reykjavík þar sem lýðræðið yrði svo dínamískt að allir væru þátttakendur? Það er glæsileg lýðræðissýn. Það sem við höfum upplifað á undanförnum áratugum í Reykjavík er ekki glæsileg lýðræðissýn þar sem borgarskipulagið sjálft er þanið út eins og amerísk stórborg vegna þess að borgarstjóri Reykjavíkur til margra ára var bílasali. Vonandi þurfum við ekki að fara aftur í gegnum það tímabil. (BJJ: Vonandi ekki.) Hv. þm. Birkir Jón Jónsson er sammála mér í þessu máli en hins vegar er hann ekki sammála mér um fjölgun sveitarstjórnarmanna og því væri ágætt að fá hann upp á eftir til að lýsa því hvernig hann ætlar þá að koma að þessu.

Frú forseti. 11. gr. þessa frumvarps gengur alls ekki nógu langt og með það í huga mun ég ekki geta stutt þetta mál. (BJJ: Það er eins gott.)

Svo ég snúi mér nú að 64. gr. þá er þar um að ræða skuldaþak á skuldir sveitarfélaga. Það skuldaþak er hættulega lágt og það er athyglisvert að núna, um það bil mánuði eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er farinn frá Íslandi, skuli Alþingi Íslendinga vera að setja skuldaþak sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krafðist að yrði sett á fyrir tveimur árum. Þetta skuldaþak á skuldir sveitarfélaganna er í eðli sínu þannig að það mun krefjast eignasölu hjá sveitarfélögunum þó að það séu mörg ár þangað til þurfi að ná því. Það mun krefjast þess að almenningsþjónusta verði einkavædd og seld til að sveitarfélög geti greitt niður skuldir sínar. Er það þetta sem þingmenn Vinstri grænna og þingmenn Samfylkingarinnar vilja? Ég held ekki, en engu að síður styðja þeir þessa reglu. Það má vissulega ímynda sér að hægt sé að veita sveitarfélögum meira aðhald í fjármálum með einhverjum hætti en þetta er ekki rétta leiðin til þess. Rétta leiðin til þess gæti t.d. verið, frú forseti, með aðhaldi íbúa í íbúakosningu. Ég leyfi mér einfaldlega að halda því blákalt fram að ef íbúar á Álftanesi hefðu getað krafist íbúakosningar um nýja miðbæinn, sem svo gerræðislega átti að fara að byggja og setti sveitarfélagið á hausinn, hefðu þeir einfaldlega stöðvað þá framkvæmd. Þannig hefðu hlutirnir virkað en ekki eins og fyrir liggur að nú muni þurfa að leita að kaupanda fyrir fínu sundlaugina okkar á Álftanesi.

Frú forseti. 64. gr. er ávísun á stórfellda eignasölu og einkavæðingu á almannaþjónustu. Þetta er vond grein en því miður verður ekki vikið frá henni héðan í frá.

Í 107. og 108. gr. um íbúakosningar er skrefið og hugmyndin vissulega virðingarverð en útfærslan ónýt. Útfærslan er ónýt vegna þess að það er sveitarstjórnin sem ákveður kosninguna í 107. gr. Sveitarstjórnin ákveður hvort kosningin sé ráðgefandi eða bindandi og sveitarstjórnin ákveður ýmislegt í þessu eins og segir í 108. gr. t.d., með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnin á þó ákvörðunarvald um framkvæmd viðkomandi viðburðar og þá spurningu sem borin verður upp sé um að ræða almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélagsins.“

Það er slæm tilfinning ef þingmenn halda að aðkoma íbúa að stjórnum sveitarfélaga skipti ekki máli og sé óþörf. Mér finnst það afleitt og ég leyfi mér að benda á að fyrir tveimur dögum var í Ráðhúsinu ráðstefna um nútímalegt og beint lýðræði í Sviss og á Íslandi og verður þessum bæklingi sem ég hef fyrir framan mig dreift til allra þingmanna. Þar segir á bls. 22 í kaflanum „Beint lýðræði – Efnahagslegt vandamál?“, með leyfi forseta:

„Hagfræðingarnir Gebhard Kirchgässner og Lars Feld frá St. Gallen birtu rannsókn árið 1999 þar sem þeir greindu efnahagsleg áhrif mismunandi löggjafar um beint lýðræði í svissneskum kantónum. Það sem þeir komust að var að í kantónum þar sem réttur til beins lýðræðis var meiri var efnahagsleg frammistaða betri, skattsvik minni, skuldir kantóna og sveitarfélaga lægri, opinber útgjöld lægri og almenningsþjónusta ódýrari.

Á sama hátt komust rannsakendurnir Bloomberg o.fl. (2004) að þeirri niðurstöðu að um það bil 20% meira af opinberum útgjöldum fóru til spillis í ríkjum Bandaríkjanna þar sem borgarar áttu engan kost á því að kalla eftir almennum atkvæðagreiðslum í samanburði við ríki þar sem slíkt fyrirkomulag var við lýði.“

Svo tala menn um kostnaðinn af beinu lýðræði. Það er stórfelldur sparnaður af beinu lýðræði í sveitarstjórnum.

Þetta frumvarp er unnið með hraði og það sem fjallað er um í 107. og 108. gr. er illa rökstutt og nýframkomnar breytingartillögur frá samgöngunefnd um að þrengja þessi ákvæði enn frekar eru bara til þess fallnar að gera málið enn verra. Að vísu er jákvæð breyting þar sem farið er úr átta árum niður í fjögur ár með fjölgun sveitarstjórnarmanna en hún er allt of veigalítil.

Frú forseti. Þegar þingmenn kjósa að hlusta á rök sveitarstjórnarmanna fyrir fjölda í sveitarstjórnum þá er það algerlega marklaust. Að sjálfsögðu munu sveitarstjórnarmenn ekki óska sjálfir eftir valddreifingu. Það er með sveitarstjórnir eins og aðra stjórnendur, þær vilja ekki láta frá sér valdið. Valdið er aldrei gefið, valdið er bara tekið. Þess vegna þurfti Alþingi m.a. að útvista drögum að nýrri stjórnarskrá sem nú er nýlokið við að gera.

Frú forseti. Að lokum vil ég tæpa á því sem hv. þm. Kristján L. Möller kom inn á áðan um vandkvæði við undirskriftasafnanir og hverjir ættu að geta krafist atkvæðagreiðslna. Þar vil ég leyfa mér að benda á að strax sumarið 2009 lagði Hreyfingin fram frumvarp um almennar kosningar, um þjóðaratkvæðagreiðslur og ýmislegt fleira og þar er m.a. kafli um það sem við köllum lýðræðisstofu sem yrði einfaldlega batterí í skrifstofustíl sem sæi um framkvæmd á slíkum kosningum. Við höfum fengið alls konar umræðu um það að hinar og þessar undirskriftasafnanir séu lélegar, ekki góðar og ómarktækar og að fara af stað með 107. og 108. gr. inn í þannig umhverfi þar sem er ekki frá gengið með hvaða hætti slíkar undirskriftasafnanir eiga að fara fram er einfaldlega óráð. 108. gr. sem og 107. gr. eru því illa rökstuddar og munu verða til vansa, auk þess sem íbúar upplifa að sú kosning sem þeir taka þátt í er ekki marktæk vegna þess að hún er ekki bindandi en það grefur undan hugmyndinni um íbúalýðræði. Það er eitt af því sem var talað um á ráðstefnunni í Tjarnarsal Ráðhússins fyrir tveimur dögum. Það var líka eftirtektarvert að þrátt fyrir að allir þingmenn hefðu fengið boð á þá ráðstefnu mættu eingöngu þingmenn Hreyfingarinnar þangað sem og Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar. Lýðræðisvitund alþingismanna er ekki nægilega sterk og virk og ég hvet einfaldlega alla þingmenn til að taka höndum saman um að þetta frumvarp og að þessar þrjár greinar þess verði endurskoðaðar strax í (Forseti hringir.) upphafi næsta þings.