139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér dettur í hug ágætur skipstjóri sem ég var lengi með á sjó. Hann var ekkert sérstaklega bjartsýnn og gekk alltaf út frá því að allt mundi fara á verri veg þegar lagt var úr höfn. Hann tók stundum svo til orða að það væru aðeins tvær leiðir út úr vandanum: Önnur væri að hengja sig og hin að skjóta sig. Þeirri hugsun laust eiginlega niður hjá mér eftir að hafa hlýtt á hv. þingmann flytja þessa messu um hið ágæta frumvarp því að þar var hvergi nokkurs staðar ljósan punkt að finna, sem mér þykir dapurt því að hv. þingmaður og hans þingflokkur hefur margt gott fram að færa í sveitarstjórnarmálum og hefur haft áhuga á þeim.

Hv. þingmaður hefur átt rétt sem áheyrnarfulltrúi í samgöngunefnd. Það getur vel verið að hv. þingmaður hafi setið einhverja fundi á síðasta vetri um þetta mál en hann sat engan fund í það minnsta í ágúst eða lagði neitt af mörkum í vinnslu þessa máls, sem ég sakna. Ég hefði viljað fá margt af því hingað inn. Hv. þingmaður er bæði rökfastur og fylginn sér á slíkum vettvangi og hefði án efa haft mikið fram að færa til að geta gert þetta frumvarp betur úr garði en það er.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er enginn ljós punktur að hans mati í þessu frumvarpi sem telur vel á annað hundrað lagagreinar? Er hvergi nokkurs staðar hægt að setja fingur á að verið sé að auka íbúalýðræði, ramma niður skýrari reglur um fjármál sveitarfélaga o.s.frv.? Um þetta eru allir sammála aðrir en hv. þingmaður og þingflokkur Hreyfingarinnar, hlýtur að vera, ég ætla þó ekki að gera þeim það upp en í það minnsta hv. þingmaður. Það eru allir sammála um að það séu einhverjar góðar tillögur þarna innan um og að við séum að þokast í rétta átt þó að margt megi betur gera. Er ekkert í frumvarpinu sem hv. þingmaður getur tekið undir eða telur (Forseti hringir.) spor í rétta átt?