139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[17:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil segja nokkur orð í þessari umræðu um sameiginlega tillögu okkar hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar, hann er 1. flutningsmaður en er fjarri nú af ástæðum sem allir hljóta að virða. Ég held að hann sé að halda upp á brúðkaupsafmæli sitt á Suðurlandi og það eiga menn svo sannarlega að gera.

Tillaga okkar er kunn í þinginu. Hún hljómar þannig að við viljum að sú tala sem nú stendur í sveitarstjórnarlögum, um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélagi, hækki úr 50 í 1.500 en samkvæmt frumvarpi hæstv. ráðherra á að fella þessa tölu út og ekki er gert ráð fyrir lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélagi þannig að þeir geta væntanlega farið niður í einn ef frumvarpið er túlkað út í æsar.

Það er um þessa tillögu að segja að við veljum töluna vegna þess að það er í raun og veru ekki sæmandi að mikið færri séu í sveitarfélagi. Fjöldi sveitarfélaga er 76. Yfir 1.500 íbúum eru 28 sveitarfélög, undir 1.500 íbúum eru 48 sveitarfélög. Auðvitað er ekki hægt að reikna þróunina út en búast má við að ef þetta yrði samþykkt, og tæki auðvitað nokkur ár að komast í gagnið, yrðu sveitarfélögin um það bil 40–50.

Við höfum náð miklum árangri í þau 20 ár sem sameining sveitarfélaga hefur staðið yfir frá því að það var gert að samkomulagsmáli í stjórnmálum á þessum tveimur stjórnsýslustigum en því miður hefur ekki nógu margt gerst. Við vitum auðvitað helstu rök í þessu. Við erum að tala um vernd fyrir íbúa gegn óstjórn, við viljum tryggja grundvallarþjónustu, skóla, leikskóla, þjónustu við fatlaða og aldraða. Við viljum hreinsa út smákónga sem eru óþarfir og til óþurftar í ýmsum sveitarfélögum þó að það eigi að sjálfsögðu ekki við um öll sveitarfélög, og stærri sveitarfélög eru forsenda frekari eflingar sveitarstjórnarstigsins eins og menn vita.

Menn hafa það á móti þessari tillögu nú að þetta sé að gerast af sjálfu sér og hefur sem sé verið allan þennan tíma. Í staðinn eiga að koma byggðasamlög og ýmiss konar samstarf sveitarfélaganna og það er auðvitað mjög gott og vænt að það gerist og það getur verið prýðilegur undanfari sameiningar. Þetta hljómar vel en í raun er engin áætlun í gangi um þetta og enginn sérstakur stuðningur til þeirra sveitarfélaga sem vilja fara þessa leið. Ég held því, og við hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson teljum svo, að það sé óráð að sleppa tölunni úr lögunum og leggjum til að þetta verði gert. Ef ekki er hætt við að óstjórn haldist áfram í sveitarfélögum landsins, komi í veg fyrir að önnur sveitarfélög þroskist, nái blóma og geti tekið að sér aukin verkefni í samræmi við þarfir íbúanna.

Ég vonast til að þessi tillaga fái fylgi. Mér sýndist reyndar áðan, þegar menn héldu að hún kæmi til atkvæða, að ég kynni að verða fyrir vonbrigðum með fylgi þessarar tillögu á þinginu. Við tökum því auðvitað en ég hygg að þetta verði að veruleika fyrr eða síðar, að sett verði inn tala í stað tölunnar 50 í núverandi lögum, og vonast til að það verði sem allra fyrst.