139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[17:23]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að þurfa að spyrja spurninga í 3. umr. þegar langt er liðið á daginn og lok þingsins eru fram undan en ég tel hins vegar nauðsynlegt að gera það til að fá svör við ákveðnum atriðum. Fyrir það fyrsta vil ég taka undir að mér sýnist og ekki bara sýnist, ég sé að að þetta starf hefur verið unnið ákaflega vel í samgöngunefnd og það er gott. Þeirri vinnu var startað fljótlega árið 2010 með því að skipa þverpólitíska nefnd sem endurskoðaði sveitarstjórnarlögin eins og getið er um í athugasemdum við frumvarpið og það hvernig það var kynnt og unnið var til fyrirmyndar. Síðan kom þetta mál hingað og við klárum þetta í dag. Þess vegna er mér frekar á móti skapi að vera að tefja þetta núna.

Ég tel engu að síður nauðsynlegt að fá svör við ákveðnum spurningum hjá hæstv. ráðherra vegna þess að núna við 3. umr. komu inn atriði sem Samband íslenskra sveitarfélaga gerði athugasemdir við, þ.e. þá lágmaksprósentu sem gæti krafist íbúakosningar, en eins og kom fram í stuttu andsvari áðan hefur það verið hækkað upp í 33% og er sveitarfélögum í sjálfsvald sett að ákveða hvað þar er gert, og jafnframt að ekki sé hægt að hafa íbúakosningu um fjárhagsáætlun, nema um einstök verkefni er það auðvitað hægt, eins og ég tók dæmi um áðan, þó svo að það varði fjárhagsáætlun.

Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Þór Saari að betra hefði verið að íbúar á Álftanesi hefðu getað krafist íbúakosningar um t.d. samninginn við Fasteign hf. út af byggingu sundlaugarinnar eða miðbæjarins sem má segja, og ég tek undir með hv. þingmanni, setti sveitarfélagið á hausinn, ógætilegar fjárfestingar sem það sveitarfélag sér ekki fyrir endann á lengur.

Virðulegi forseti. Ég ætla stytta mál mitt hér en ég vildi koma upp í ræðu til að spyrja hæstv. ráðherra. Hér er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglur um hvernig safna skuli undirskriftum og mér þykir ákaflega mikilvægt að heyra frá hæstv. ráðherra hverjar hugmyndir hans eru varðandi reglur um þetta. Ég tek sem dæmi: Yrði leyfilegt að knattspyrnufélag setti á heimasíðu sína undirskriftalista eða opnaði heimasíðu þar sem menn gætu skrifað sig á lista til að krefjast íbúakosningar um t.d. að byggja nýjan grasvöll eða að byggja nýja sundlaug? Hvernig yrði þetta gert? Í framhaldsnefndarálitinu er talað um Sviss og Þýskaland og spurningin er hvort þetta ætti að vera í lögum eða reglum. Ég tel að við eigum að setja lög um þetta þannig að allir verði skyldugir til að fara eftir þessu og að við ræðum það á Alþingi að þetta sé ekki reglugerðarákvæði. Ég spyr auðvitað út af því að við höfum líka dæmi þar sem mig og hæstv. innanríkisráðherra greinir mjög á, ég skal bara nefna það dæmi og ég ætla að gera það í þessari umferð til að auðvelda ráðherranum að svara og það styttir umræðu okkar um leið: Yrði t.d. gefinn kostur á því að hafa sama form og Félag íslenskra bifreiðaeigenda hafði til að mótmæla stórframkvæmdum í samgöngumálum á suðvesturhorninu þar sem sett var fram mjög leiðandi og jafnframt villandi fullyrðing og svo var opnað fyrir það að hver sem var gat komið þar inn og skrifað sig á listann? Þannig söfnuðust og skráðu sig á örskömmum tíma 45 þúsund manns og hæstv. ráðherra tók það gott og gilt og sló þessar samgönguframkvæmdir af í framhaldi af því vegna þess að það var metið svo að íbúar væru að mótmæla þessu, kjósendur.

Ég vil jafnframt spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki rétt að útbúa hreinlega frumvarp og leggja fram á næsta þingi um það hvernig skuli standa að þessu þannig að allir hafi þetta eins.

Virðulegi forseti. Þetta er gert á hálfgerðu hundavaði en það er vegna þess að við erum á lokamínútu þingsins og má segja að ég sjái það á svip manna að ekki sé vel séð að við séum að lengja þessa umræðu mjög mikið.