139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

samkomulag um 310. mál, staðgöngumæðrun.

[17:46]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið tekið út af dagskrá mál 310, staðgöngumæðrun. Á fundi þingflokksformanna fyrr í dag náðist um það samkomulag að málið yrði tekið af dagskrá á þessu þingi en tekið til umræðu og þinglegrar meðferðar sem allra fyrst á haustþingi. Þess má geta að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir var með okkur á þeim fundi og er aðili að þessu samkomulagi þó að hún hafi þurft að víkja af fundi nú fyrir nokkru.

Hér erum við að tala um afar umdeilt og viðkvæmt mál sem snertir grunngildi lífsins og afar sterkar tilfinningar margra. Þess vegna þurfum við að ræða málið málefnalega og af sérstaklega milli vandvirkni. Til þess gefst ekki tími á þessu þingi svo gefa þarf því þann tíma sem þarf strax á nýju þingi.

Ég held að fjölbreytilegar umræður á þingi geti verið mikilvægt innlegg í þá grundvallarumræðu sem fer fram í samfélaginu um staðgöngumæðrun. Tökum þá umræðu á haustþinginu svo greina megi málið í framhaldinu á vegum ákveðinna aðila, Stjórnarráðsins, fræðasamfélagsins og víðar. Umræðan verður að mótast af virðingu fyrir mismunandi skoðunum.

Ég þakka öllum þeim sem hafa lagt sitt til í þessu máli, bæði þeim sem eru algjörlega á móti því að heimila staðgöngumæðrun og þeim sem vilja heimila hana. Ekki síður þakka ég þeim sem unnu að því mjög einlæglega að ná sátt í þessu máli á síðustu dögum. Tökum umræðuna í haust með jákvæðum huga, iðkum þar rökræður af bestu gerð um grunngildi lífsins, mannréttindi, kvenfrelsi og lífsgæði.