139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

samkomulag um 310. mál, staðgöngumæðrun.

[17:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég undirstrika það sem þingflokksformenn sem hér hafa talað hafa sagt, náðst hefur samkomulag um hvernig eigi að ljúka þessu máli og gefnar leiðbeiningar um hvernig fara skuli með það á nýju þingi.

Það er mikilvægt að við höfum það í huga um það mál sem var á dagskrá að ætlunin var ekki að setja lög um staðgöngumæðrun heldur hefja mikilvæga og þarfa vinnu við að undirbúa og kanna hvernig sú löggjöf ætti að líta út ef Alþingi og framkvæmdarvaldið kysu að setja lög um málið. Eins og komið hefur fram í umræðum er þetta ekki stórt mál í augum sumra en gríðarlega mikilvægt, persónulegt og alvarlegt fyrir kannski frekar fáa einstaklinga. Þess vegna þurfum við að sjálfsögðu að vanda þá umræðu sem verður um málið.

Það er hins vegar alveg ljóst að við munum taka málið upp á nýju þingi. Við munum greiða atkvæði um það á haustþingi og við munum vanda okkur við þá umræðu sem fer fram. Við þurfum líka að passa það sem er hluti af þeirri sátt sem við gerðum að þetta merka mál, hvernig sem það mun líta út í haust, lendi ekki aftur í þeirri súpu sem vill gjarnan verða við lok þings.

Ég held, frú forseti, að þetta sé prýðislausn og ég þakka þeim sem lögðu það á sig að ná þessari niðurstöðu, bæði þeim sem gengu mjög hart í að þetta mál næði fram að ganga og líka þeim sem gerðu hvað þeir gátu til að mæta þeim sjónarmiðum.