140. löggjafarþing — þingsetningarfundur

forseti Íslands setur þingið.

[11:14]
Horfa

Forseti Íslands ():

Gefið hefur verið út svohljóðandi bréf:

Forseti Íslands gjörir kunnugt:

„Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar laugardaginn 1. október 2011.

Um leið og ég birti þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 10.30.

Gjört á Bessastöðum, 27. september 2011.

Ólafur Ragnar Grímsson.

 

___________________

Jóhanna Sigurðardóttir.

 

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman laugardaginn 1. október 2011.“

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi er sett.

Í sögu Íslendinga og þjóðarvitund hefur Alþingi um aldir haft sérstakan sess, var grundvöllur hins forna þjóðveldis og öldum síðar vettvangur baráttunnar fyrir sjálfstæði og fullum rétti, mótaði á umliðnum áratugum umgjörð um framfarir og hagsæld, lífskjör sem voru í flestu til jafns við aðra.

Alþingi er kjarninn í þeirri lýðræðisskipan sem Íslendingar hafa búið við frá miðbiki 19. aldar til lýðveldistíma; sambúð þings og þjóðar verið friðsöm og farsæl.

Í röska öld hefur þingsetning haldið sama blæ, birt á hógværan og hátíðlegan hátt virðingu og trúnað sem fólkið í landinu hefur sýnt þessari stofnun.

En um þessar mundir eru merki þess að brestir séu í brúnni milli þings og þjóðar. Það sýnir umræðan hér í salnum og utan hans, hin hörðu mótmæli sem voru í fyrra við þingsetningu og einnig fjöldinn sem staðið hefur á Austurvelli á þessum morgni og sendir til þingsins sín skilaboð. Að þúsundir telji sig ár eftir ár knúnar til andófs við setningu þingsins er hættumerki sem okkur öllum ber að taka alvarlega, áminning um að endurreisn í kjölfar bankahrunsins felst ekki aðeins í aðgerðum á sviði efnahagslífs og fjármála. Hún þarf líka að rækta þann lýðræðisjarðveg þar sem rætur Alþingis hafa legið.

Þingið sem nú tekur til starfa verður að leita lausnar á þessum vanda, skapa nýja sátt við þjóðina.

Nýliðin þing hafa á vissan hátt viðurkennt slíka þörf með því að ýta úr vör endurskoðun á stjórnarskránni þótt ekki væri hér einhugur um aðferðir. Sú vegferð hefur þegar falið í sér þjóðfund og störf sérstakrar stjórnlaganefndar, kosningar til stjórnlagaþings og skipun og vinnu stjórnlagaráðs sem nú hefur lokið sínu verki. Allur hefur þessi málatilbúnaður verið umfangsmikill enda nemur kostnaðurinn rúmlega hálfum milljarði króna.

Stjórnlagaráð skilaði tillögum við sumarlok og fékk forseti Alþingis þær í hendur. Var sú athöfn hátíðleg og Alþingi hefur síðan ákveðið að taka tillögurnar til umræðu og meðferðar. Þótt margir hafi áréttað þann vilja sinn að þjóðin fái sem fyrst að greiða atkvæði um þá stjórnarskrá sem tillögurnar fela í sér munu breytingar ekki öðlast gildi nema Alþingi samþykki tvívegis lagafrumvarp þessa efnis og kosningar fari fram í milli.

Tillögur stjórnlagaráðs fela í sér veigamiklar breytingar á stjórnskipun landsins. Þar eru ný ákvæði um mannréttindi, auðlindir, umhverfi og náttúrugæði, menningu, mannhelgi og aðgang að upplýsingum.

Þjóðinni er veittur réttur til að verða með beinum hætti virkur þátttakandi við setningu laga. Tíundi hluti kosningarbærra manna getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt og almenningur getur sent Alþingi lagafrumvörp og tillögur sem því ber að taka til meðferðar; og einnig er gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um þau mál. Stjórnlagaráðið taldi greinilega að reynslan af þjóðaratkvæðagreiðslunum á undanförnum missirum hafi verið góð; nú skuli gengið enn lengra á þeirri braut.

Tillögurnar fela þó einnig í sér að leitast er við að styrkja Alþingi, auka sjálfstæði þess gagnvart ríkisstjórn og festa enn frekar í sessi eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins. Þingnefnd er veitt heimild til að hefja rannsóknir á störfum ráðherra og skipa í því skyni sérstaka saksóknara. Um leið er dregið mjög úr valdi ríkisstjórnar og einstakra ráðherra. Þeir munu ekki lengur eiga sæti á Alþingi né heldur fastan seturétt á þingflokksfundum; atbeini þeirra við setningu laga er verulega takmarkaður. Ráðherrar munu ekki að jafnaði geta tekið þátt í umræðum á Alþingi nema þeir séu sérstaklega til kvaddir. Einnig er skertur réttur ráðherra til að skipa í embætti.

Tillögur stjórnlagaráðsins eru þess eðlis að vægi stjórnmálaflokka og flokksforingja í gangvirki stjórnkerfisins verður til muna minna en verið hefur allan lýðveldistímann. Alþingi yrði í ríkum mæli vettvangur einstaklinga sem náð hefðu kjöri í krafti persónufylgis; tök flokkanna á störfum þingsins mundu veikjast til muna.

Allt eru þetta veigamiklar breytingar, í raun nýr grundvöllur stjórnskipunar og annars konar lýðræðiskerfi en þjóðin hefur vanist, mjög frábrugðið því sem við höfum þekkt í áratugi. Eru þó ótaldar tillögur stjórnlagaráðs um forseta Íslands; tillögur sem efla umsvif forsetans á vettvangi stjórnkerfisins, færa embættinu aukna ábyrgð.

Stjórnlagaráðið leggur til að málskotsréttur forseta, sem kveðið er á um í 26. gr. núverandi stjórnarskrár, verði áfram óbreyttur. Engin takmörk eru því sett um hvaða mál komi þar til greina.

Þá þarf forseti að samþykkja val á dómurum og ríkissaksóknara og geta aðeins tveir þriðju hlutar Alþingis hnekkt ákvörðun forseta. Sérstakur fulltrúi forsetans skal og gegna formennsku í nefnd sem metur hæfni umsækjenda um önnur æðstu embætti og gerir tillögur um þau. Er þar m.a. átt við stjórnendur ráðuneyta og mikilvægra opinberra stofnana. Ráðherrar eru svo bundnir af niðurstöðum nefndarinnar nema sama hlutfall Alþingis styðji annað.

Hlutverk forseta við myndun ríkisstjórna tekur einnig miklum breytingum; verður mun sjálfstæðara. Í stað þess að formenn stjórnmálaflokka móti valkosti forsetans eins og tíðkast hefur frá lýðveldisstofnun mundi forseti sjálfur hafa frumkvæði að viðræðum við einstaka þingmenn og þingflokka. Hann gerir síðan tillögur til Alþingis um forsætisráðherra og er þá ekki bundinn af því að velja þingmann til þess embættis. Verði fyrsta tillaga forsetans ekki samþykkt hefur hann að nýju viðræður við þingmenn og þingflokka.

Í stað þess forustuhlutverks sem formenn flokka hafa í áratugi haft við myndun ríkisstjórna fela tillögur stjórnlagaráðs í sér nýja skipan þar sem beinar viðræður forsetans við þingmenn yrðu afgerandi.

Stjórnlagaráðið kýs einnig að draga úr samskiptum ráðherra við forseta. Ríkisráð yrði lagt niður og ráðherrar mundu ekki lengur leggja lagafrumvörp fyrir forseta til samþykkis. Það yrði verkefni forseta Alþingis sem jafnframt yrði í forföllum forseta eini handhafi forsetavalds. Hlutverk forsætisráðherra tæki að sama skapi breytingum. Hann yrði hvorki handhafi forsetavalds né hefði tillögurétt um þingrof. Það yrði ákveðið af Alþingi og staðfest af forseta. Þannig auka tillögurnar á ýmsan hátt bein tengsl forseta Íslands og Alþingis.

Það þekkja allir í þessum sal og reyndar þjóðin líka að á undanförnum árum og áratugum hefur oft verið um það deilt hvort forseti lýðveldisins eigi að hafa mikil eða lítil umsvif á vettvangi stjórnkerfisins. Svar stjórnlagaráðsins er skýrt. Tillögur þess fela í sér mun valdameiri forseta. Slíkt eru tvímælalaust veruleg tíðindi en vandi Alþingis í meðferð málsins mun þó mótast að nokkru af því að forsetakosningar eiga að fara fram á sumri komanda. Tími til ákvarðana er þess vegna takmarkaður og brýnt er að afstaða Alþingis til þessara tillagna liggi fyrir í tæka tíð. Annars bæri Alþingi ábyrgð á því að þjóðin vissi ekki hver staða forsetans yrði í stjórnskipun landsins þegar hún gengur að kjörborðinu. Forsetakosningarnar yrðu þá algjör óvissuferð.

Mikilvægt er að koma í veg fyrir það enda má ekki setja þjóðina í þann vanda að hún geti ekki metið á raunhæfan hátt verðleika frambjóðenda vegna þess að völd, áhrif og hlutverk forsetans í stjórnskipun landsins séu enn til umræðu á Alþingi; enginn viti hverjar verði skyldur þess sem kosningu hlýtur. Því er áríðandi að nýhafið þing móti skýra afstöðu til tillagna stjórnlagaráðs þótt breytingar á sjálfri stjórnarskránni hljóti ekki endanlegt gildi fyrr en að loknum næstu þingkosningum.

Takist Alþingi ekki að ná niðurstöðu nú í vetur hefur þjóðin með þessu ferli öllu verið sett í afar erfiða stöðu. Henni verður þá gert að kjósa forseta Íslands í fullkominni óvissu um stöðu hans í stjórnskipun landsins. Það er einlæg ósk mín til hins nýja þings að þessi vandi verði farsællega leystur og þingmenn láti ekki afstöðu til verka núverandi forseta tefja för. Sú forsetatíð mun taka enda eins og annað. Í húfi er hins vegar framtíðarskipan lýðveldisins. Þjóðin hefur ávallt vænst mikils af Alþingi og svo er einnig nú.

Því er ósk mín og allra Íslendinga að störf þingsins verði farsæl, ættjörðinni til heilla. Bið ég alþingismenn að rísa úr sætum og minnast hennar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

[Strengjakvartett flutti lagið Hver á sér fegra föðurland.]