140. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2011.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:13]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Núna eru liðin rétt þrjú ár frá því að efnahagsleg tilvera okkar Íslendinga fór öll á hvolf. Þrjú ár eru hvort tveggja í senn langur tími og skammur. Þau eru langur tími fyrir einstaklinga sem hafa þurft að búa við óvissu um afkomu, atvinnumissi og viðvarandi atvinnuleysi. Þrjú ár eru hins vegar skammur tími til að endurreisa heilt samfélag úr efnahagslegum rústum.

Verk ríkisstjórnarinnar eru ekki yfir gagnrýni hafin og vissulega hefur sumt ekki gengið eftir eins og við höfðum vonast til. En það er engum til gagns að gleyma því að skulda- og bankakreppa hefur gengið yfir allan okkar heimshluta og það er víðar en hér sem skortir á fjárfestingavilja og fjárfestingagetu. Smám saman eru þó skilyrði að batna til þess að við getum vænst umskipta.

Ríkisstjórnin hefur undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur unnið af einurð að því að skapa aðstæður til árangurs og framþróunar í atvinnumálum. Þegar núverandi ríkisstjórn kom að málum var skuldatryggingarálag ríkissjóðs um 1.300 punktar en er í dag 300. Stýrivextir voru hér 18% en eru nú 4,5%. Verðbólgan var 18,6% en er nú 5,7%. Við misstum um 12 þús. störf í hruninu 2008. Sem betur fer höfum við náð að vinna þó nokkuð af þeim til baka og samkvæmt mælingum Hagstofunnar eru a.m.k. tæplega 4 þús. þegar komin til baka á miðju þessu ári. Atvinnuleysi hefur farið niður úr 9,3% þegar það stóð sem hæst í 6,7% sem það stendur í nú. Af öllum Norðurlöndunum er það einungis Noregur sem býr við lægra atvinnuleysi en við Íslendingar.

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Enn er verkefnið ærið. Við ætlum og við skulum ná atvinnulífinu aftur á strik þannig að hér verði gott að búa. Það sem ég taldi upp áðan er árangur. Allt sem ég nefndi áðan skapar grunn að því sem koma skal, skapar grunninn að þeirri uppbyggingu sem nú fer fram.

Við sjáum tvö stór verkefni núna sem eru að fara af stað á Suðurnesjum, sem hvað harðast hefur orðið fyrir barðinu á atvinnuleysinu. Framkvæmdir eru að hefjast við gagnaver suður með sjó en þar munu skapast um 100 störf á uppbyggingartíma og 100 störf til frambúðar. Stefnt er að því að framkvæmdir við kísilver í Helguvík hefjist á þessu ári. Þar munu 300 ársverk skapast á framkvæmdatíma og um 90 störf til framtíðar.

Ég nefni þessi tvö dæmi vegna þess að þetta eru góðar fréttir, ekki bara fyrir Suðurnesjamenn heldur fyrir þjóðarbúið allt. Hér erum við í fyrsta skipti í langan tíma að sjá aukna fjölbreytni í erlendum fjárfestingum en Ísland hefur í áratugi verið á meðal þeirra þjóða sem hafa hvað mestar takmarkanir á erlendum fjárfestingum samkvæmt mælingum OECD. Það eru engar nýjar fréttir að við stöndum höllum fæti þegar kemur að slíkum samanburði. Það eru áratugagamlar fréttir. En, virðulegi forseti, núverandi ríkisstjórn ætlar að breyta þessu.

Ýmsar stórframkvæmdir standa yfir í orkugeiranum og má nefna sem dæmi að síðastliðinn laugardag gangsetti Orkuveita Reykjavíkur 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar og munu 90 megavött bætast við raforkuframleiðslu landsins þar. Landsvirkjun hefur hafið framkvæmdir á Norðausturlandi en þar mun raforkuframleiðslan verða um 180 megavött. Framkvæmdir eru á fullu við Búðarhálsvirkjun sem mun framleiða 80 megavött. Samanlögð framleiðslugeta þeirra virkjana sem ég hef talið hér upp er á við hálfa framleiðslugetu Kárahnjúkavirkjunar eða 350 megavött.

Virðulegi forseti. Tækifærin í orkugeiranum eru nýtt og það eru kannski fréttir fyrir hv. formann Sjálfstæðisflokksins, en líklega hafa honum ekki borist fréttirnar af þessu ofan í skotgrafirnar.

Enn á ég eftir að nefna að í ár verður sett nýtt met í komum erlendra ferðamanna. Það stefnir í að fjölgun verði úr 500 þús. í 600 þús. á þessu ári með tilheyrandi aukningu gjaldeyristekna. Við munum á næstu vikum kynna markaðsátak, ásamt fyrirtækjum í ferðaþjónustu og sveitarfélögum, sem er beint inn á vetrarferðaþjónustu. Ef vel tekst til getum við skapað fleiri hundruð störf um allt land og nýtt þær fjárfestingar sem fyrir eru mun betur.

Sá efnahagslegi viðsnúningur sem við höfum unnið að hörðum höndum kann að vera nær okkur í tíma en ætla mætti af fréttum neðan úr skotgröfunum. En það sem áunnist hefur hefur ekki komið af sjálfu sér. Ríkisstjórnin hefur þurft að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir, það hefur t.d. ekki verið auðvelt fyrir mig, jafnaðarmanneskju, að samþykkja niðurskurð til velferðarmála eða leggja nýjar álögur á fyrirtæki til að forða ríkinu frá gjaldþroti. Þessi ríkisstjórn hefur einsett sér að ná Íslandi upp úr hremmingum efnahagshrunsins og það eins hratt og kostur er en það hefur kostað fórnir. En nú erum við loksins komin með landsýn og getum vonandi hægt og örugglega farið að snúa vörn í sókn. Núna, þegar við höfum loksins komið böndum á ríkisfjármálin og forsendur eru að skapast fyrir styrkingu atvinnulífsins, erum við komin með möguleika til að bæta lífskjörin og efla velferðina. Ég er ekki að lofa því að allt verði komið í lag á morgun eða hinn. Það er nefnilega engin töfralausn til og allra síst megum við falla í þá freistni að keyra upp lífskjörin á lánsfé, við þekkjum öll herkostnaðinn of vel af slíkri vegferð.

Það hvílir mikil ábyrgð á okkur öllum sem sitjum á Alþingi, jafnt ríkisstjórn sem stjórnarandstöðu. Við stöndum á ákveðnum tímamótum. Við stöndum frammi fyrir krefjandi uppbyggingarverkefnum, töfralausnir eru ekki til en það er skylda okkar allra að takast á við þessi verkefni. Ég skora á okkur öll að ganga til þeirra verka samhent nú í vetur.