140. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2011.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:25]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Góðir landsmenn. Stjórnmál snúast um stefnu og framtíðarsýn en líka um raunveruleg verkfæri, tæki til að vinna að verðugum markmiðum. Það er krefjandi verk og mikil áskorun að færa samfélagið nær hugmyndum og framtíðarsýn sem byggir á kröfu um sjálfbærni og grænt hagkerfi. Gríðarmikilvæg skýrsla sem kom út nýverið um eflingu græns hagkerfis sýnir það. Í skýrslunni eru gerðar tillögur um 48 aðgerðir. Þetta eru góð fyrstu skref í rétta átt en bara fyrstu skrefin. Endanlegt markmið er að við allar ákvarðanir sé litið til hagsmuna náttúru, umhverfis og komandi kynslóða, að efnahagslegur ávinningur og hagvöxtur sé ekki mælikvarði alls eins og tíðkast hefur til þessa. Þetta er ekki bara draumsýn náttúruverndarsinna heldur einfaldlega forsenda þess að mannkynið þrífist til framtíðar. Það er sama hvað okkur kann að greina á um stök málefni líðandi stundar í þessum sal, við hljótum að vera sammála um að æðsta markmið stjórnmálanna sé að skila afkomendum okkar samfélagi sem getur tryggt þeim sómasamlegt líf, að tryggja jafnrétti kynslóðanna.

Forseti. Í þessum ræðustól gilda sérstakar reglur. Sá sem talar á yfirleitt von á því að einhverjir aðrir tali í sama máli, veiti andsvör eða komi sjónarmiðum á framfæri á annan hátt. Frá þessu er ein undantekning, forseti Íslands. Honum er ætlað að flytja boðskap samstöðu og sameiningar með þjóðinni. Síðastliðinn laugardag var það ekki svo. Forsetinn tók til máls sem stjórnmálamaður en ekki sem forseti. Þingheimur átti þess ekki kost að svara honum á sama vettvangi, heldur sátum við eins og þægur skólabekkur undir lestrinum.

Stjórnlagaráðstillögur að nýrri stjórnarskrá liggja hér fyrir til meðferðar og verða ræddar í vetur. Við þurfum að ná samstöðu um niðurstöðuna með því að bera virðingu fyrir sjónarmiðum hvers annars. Til þess er vilji á Alþingi með þingmönnum úr öllum flokkum að vanda meðferð málsins á alla lund. Það verður gert í byrjun best með því að skapa frið um málið í þessari stofnun. Þess vegna hafa þingmenn ekki dregið umræðuna um stjórnlagaráðstillögurnar inn í venjulegt stjórnmálakarp eða sjálfum sér til framdráttar. Við skulum ekki láta ræðu forseta Íslands spilla fyrir þeim góða vilja til samstöðu og sanngirni sem hér er í stjórnarskrármálinu og var í stjórnlagaráði.

Forseti. Menningin er ástæða þess að við búum á Íslandi. Í orðinu menning er allt sem gerir manninn að manni, líka sambúðin við náttúru landsins. Ég hef í nokkra mánuði fengið að gegna starfi mennta- og menningarmálaráðherra með starfi umhverfisráðherra. Maðurinn og menningin þrífst ekki án náttúrunnar, samspilið er stöðugt og tengslin margvísleg. Bókmenntahátíðin í Frankfurt staðfestir enn einu sinni að bókmenntirnar eru hrygglengjan í íslenskri menningu. Þaðan liggja lífþræðir í allar áttir, líka til kvikmyndanna sem hafa styrkt og eflt íslenska menningu innan lands og utan um árabil. Sá ánægjulegi atburður gerðist einmitt í dag að samkomulag náðist um fyrirkomulag kvikmyndanáms jafnframt því sem tekin hefur verið ákvörðun um að vinna að faglegri stefnumótun fyrir kvikmyndanám til framtíðar. Þar með er stigið mikilvægt skref fyrir einn af grunnþáttum íslenskrar nútímamenningar.

Menntunin er líka mikilvægur strengur í sjálfbærni til framtíðar. Félagslegur jöfnuður, sá sem endurspeglast í íslenska skólakerfinu þar sem öll börn geta vænst góðrar menntunar óháð efnahag, er að sumu leyti kjarninn í íslenska velferðarsamfélaginu. Það verður að standa vörð um grunnskólann sem jafnréttisstofnun og skólaskylduna því að skyldur okkar við börnin og komandi kynslóðir eru meðal okkar mikilvægustu verkefna.

Þessi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á að lyfta vægi náttúruverndar í löggjöf og ákvarðanatöku. Þessa sér stað víða með átaki í friðlýsingum, með því að setja Torfajökulssvæðið á yfirlitsskrá yfir möguleg svæði á heimsminjaskrá UNESCO og með því að leggja upp í heildarendurskoðun í lagaumhverfi náttúruverndarmála. Ég er stolt af nýrri hvítbók um náttúruvernd sem kortleggur og fjallar um allar hliðar lagaumhverfisins og stjórnsýslu náttúruverndar og leggur til úrbætur. Hvítbókin mun nýtast umræðunni um náttúruvernd til frambúðar fyrir stjórnvöld, skóla og náttúruverndarsamtök.

Forseti. Við höfum náð árangri á ótal sviðum. Við höfum leitast við að byggja upp og leitast við að bæta. En árangur næst ekki í reynd nema hann byggi á trausti og virðingu fyrir lýðræðinu. Lýðræðið sem er fallegt en brothætt eins og egg, eins og fjöregg. Nú sem fyrr reyna spillingar- og peningaöflin í samfélaginu með öllum ráðum að yfirskyggja árangur okkar, mála skrattann á vegginn, hóta hörmungum og kynda jafnvel undir ofbeldi eins og jafnan þegar þrengt er að frekum úlfi. Upplausn og tortryggni er vatn á myllu þeirra sem vilja ná aftur undirtökunum sem á sínum tíma leiddu okkur í ógöngur. Við þurfum ekki að leita lengi að þeim, við þekkjum þá öll. Við megum ekki láta blekkjast eða afvegaleiða okkur í þeirri viðleitni að breyta samfélaginu og endurmóta það.

Til að bæta samfélagið er mikilvægt að hlusta og hlusta vel, ekki bara á þá sem æpa hæst, hafa uppi mestu frekjuna eða ráða yfir fjölmiðlum í krafti auðs og peningahagsmuna. Kannski er það okkar mikilvægasta verkefni að hlusta, að hlusta líka eftir röddum sem eiga ekki málsvara og ekki æpa og láta ekki rigna fúkyrðum. Og ekki síður að hlusta hvert á annað, byggja stjórnmálin á góðum gildum, heilindum, sanngirni og réttsýni. Ef ráð til hjálpar heimilum gefast ekki nógu vel þarf að finna fleiri og betri. Ef kvótafrumvarp gengur ekki nógu langt og tryggir ekki jafnræði og sanngjarnan hlut byggðanna þarf að bæta úr því. Ef lög um fjármálastarfsemi eða orkufyrirtæki tryggja ekki félagslegt réttlæti, raunveruleg yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum og sjálfbærni þarf að vinna að því. Ef ekki dregur nógu hratt úr atvinnuleysi þurfum við að hjálpast að við að finna lausnir, góðar og heilbrigðar, ekki lausnir sem eru byggðar á sandi eða stórfelldum skaða til lengri tíma. Að þessu vinnum við, að þessu verður unnið áfram. Aðgerðir þessarar ríkisstjórnar byggja á hugsjóninni um jöfnuð og félagslegt réttlæti. Þannig vinnum við. Við erum öll kosin hingað til að láta gott af okkur leiða og til að hlusta.