140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þá hættu sem að Íslandi steðjaði í lok árs 2008 og á fyrstu mánuðum ársins 2009 nægir að vísa til umræðunnar eins og hún var þá, eins og staðan var þegar landið var í algeru frosti með allar lánafyrirgreiðslur fastar, 1.300 punkta skuldatryggingarálag og við vorum ofarlega á lista þeirra 10 ríkja heimsins sem talin voru líklegust til að fara í gjaldþrot. Umræðan var um það hvort Ísland lenti í greiðslufalli.

Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir því að opinberar skuldir gætu farið í 125–130% af vergri landsframleiðslu. Þær hafa nú staðnæmst við liðlega 100% og eru ágætar horfur á að þær fari lækkandi frá og með næsta ári. Brúttóskuldir eru 83–84% af vergri landsframleiðslu hjá ríkinu og hrein staða upp á 43–44%, sem er þrátt fyrir allt langt frá því að vera svo slæmt ef við berum okkur til dæmis saman við hóp OECD-ríkja. Ljóst er að hreina staðan fyrir Ísland er og getur á næstu árum þróast þannig að hún verði langt fyrir neðan meðaltal skulda innan OECD. Það sem ég tel að hafi skipt mestu máli er að í fyrsta lagi slapp ríkið frá endurreisn fjármálakerfisins með mun minni fjárskuldbindingum og vaxtagreiðslum en upphaflega var talið að gæti orðið.

Við höfum í öðru lagi farið eins varlega í lántökur til að byggja upp gjaldeyrisforðann og dregið á þau lán eins seint og við höfum getað og sparað okkur þannig mikinn vaxtakostnað. Margt fleira kemur til, ekki síst hefur árangurinn í ríkisfjármálum orðið betri og við fóðrum minni skuldir og erum með minni halla á þessu ári en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Allt leggst það saman og hjálpar til.

Varðandi mismunandi hagspár er það einfaldlega þannig að fjárlagafrumvarpið byggir á síðustu opinberu hagspá frá Hagstofu Íslands eftir að henni var falið það verkefni. Við getum ekki tínt eitthvað eitt út úr henni og sagt: Við ætlum að notast við þetta en ekki hitt. Við byggjum á spánni í heild. Þannig hlýtur það að vera og þannig verður það að vera.

Eigum við ekki að vera bjartsýn og vona að sæmilegar hagvaxtarhorfur (Forseti hringir.) verði áfram staðfestar í spám Hagstofunnar sem kemur í lok október eða byrjun nóvember? Það verður hún sem við notum og ekkert annað og það er ekki í höndum stjórnvalda, ríkisstjórnar eða fjármálaráðherra (Forseti hringir.) að uppdikta einhverja hagspá til að setja inn í forsendur fjárlagafrumvarps. Það er ekki þannig og á ekki að vera þannig.