140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsögu hans í þessu máli. Við erum ansi ósammála um aðferðir og aðgerðir og hvort þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir hafi skilað góðum árangri. Ég mun fara betur yfir það í ræðu minni á eftir.

Það er tvennt í málflutningi hæstv. fjármálaráðherra sem mig langar til að gagnrýna harðlega. Í fyrsta lagi fullyrðir hann að verið sé að hlífa velferðarkerfinu. Því er ég afar ósammála og við verðum að átta okkur á því að nú kemur til framkvæmda seinkaður niðurskurður frá síðasta ári. Við horfum upp á að heilbrigðisstofnanir víðs vegar um land þurfa að skera niður um allt að 9%. Nú er komið inn að beini hjá þessum heilbrigðisstofnunum og fyrir liggur að það þarf að loka einstaka deildum. Það gagnrýni ég harðlega.

Í annan stað gagnrýni ég að hvergi í málflutningi hæstv. fjármálaráðherra var að finna eitthvað um það hvernig auka eigi fjárfestingu og örva hagvöxt á Íslandi. Ríkisstjórnin setti sér sjálf markmið í þessum efnum árið 2009, það var aðgerðaáætlun sem hún ætlaði sér að standa við og hagvöxtur er langt undir þeim markmiðum sem hún setti sér. Ég vil fá að heyra það frá hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann ætlar sér að auka fjárfestingu og örva hagvöxt svo hagvöxtur næstu ára verði eitthvað sambærilegur við það markmið sem hann setti sér sjálfur.