140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að það ber að þakka almenningi fyrir þá þrautseigju sem menn hafa sýnt. Auðvitað eru það landsmenn, almenningur, sem hafa fært fórnirnar og tekið á sig þrengingarnar. Ég vil líka bæta við og þakka forstöðumönnum opinberra stofnana og opinberum starfsmönnum, því að án þeirrar miklu ábyrgðar sem þessir aðilar hafa sýnt við að takast á við erfiðar aðstæður, erfið og aukin verkefni á tímum samdráttar og niðurskurðar, væri þetta ekki hægt; þá væri ekki hægt að ná þó þeim mikla árangri sem við höfum náð í þessum efnum. Forstöðumenn í opinberum rekstri hafa sýnt einstaka ábyrgð undanfarin ár við að reyna að halda sínum rekstri innan fjárheimilda þrátt fyrir skertar heimildir. Þannig að sá árangur hefur batnað ár frá ári þrátt fyrir skertar fjárveitingar.

Í öðru lagi um vanskilaskrá. Það er rétt og það er auðvitað áhyggjuefni að þar eru núna um 8,5% fullorðinna manna, 26.000 í staðinn fyrir 16.000 sem voru á þeirri skrá fyrir hrun. Góðærið var nú ekki meira en það í þessum skilningi en svo að 16.000 manns voru á vanskilaskrá árin 2007 og 2008. Þetta er lægri tala, lægra hlutfall, en var á erfiðleikaárunum á tíunda áratugnum. Þá voru fleiri á vanskilaskrá á blómatíma valdaskeiðs Davíðs Oddssonar á árunum 1992–1995 og 1996. Þá voru fleiri á vanskilaskrá en eru núna eftir þriggja ára mjög erfiða kreppu. Það góða er að við reiknum með að þetta sé toppurinn. Þess sér núna stað, bæði í gögnum frá bönkum og Íbúðalánasjóði, að skuldbreytingaaðgerðirnar eru byrjaðar að virka og lán eru farin að komast í skil.

Varðandi tekjuöflunaraðgerðir eða auknar álögur sem hv. þingmaður segir verð ég að koma að því betur í seinna svari mínu. En tímamótin, ef hv. þm. vill vera svo góður að koma upp aftur, í þessu frumvarpi eru (Forseti hringir.) einmitt þau að engar almennar skattahækkanir eru boðaðar á næsta ári. Engar.