140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:49]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Mér er þokkalega vel við hæstv. fjármálaráðherra sem samþingmann í Norðausturkjördæmi. Ég geri honum þann greiða að koma aftur upp svo að hann geti lokið ræðu sinni.

Það er í mínum huga ekkert gott að benda á eitthvað annað sem miður hefur farið hér á árum áður. (Gripið fram í.) Stundum liggur manni við að ætla að hæstv. fjármálaráðherra, ásamt nokkrum starfsbræðrum sínum í ríkisstjórninni, hafi tiltekna persónu á heilanum. Hverju eru menn bættari að geta bent á að einhvern tímann áður hafi hlutirnir gengið illa? Landið var ónumið hér fyrir árið 700. Viljið þið ekki sækja þangað aftur? Hvert ætla menn í samanburðinum? Staðan er (Gripið fram í.) er þessi núna, eins og henni er lýst á hlutlægan heiðarlegan hátt. Ég ætla skyldur stjórnvalda þær að bregðast við stöðunni eins og henni er lýst, ekki að afsaka aumingjagang sinn með þeim hætti að segja að einhver annar hafi gert verr. Fólk í dag er ekkert að spyrja um það. Fólk á Suðurnesjum sem ber 15–16% vanskilaskrá Íslands uppi er ekkert að spyrja um það hvernig þetta hafi verið á árum áður.

Menn eiga að forðast það í lengstu lög að bera þetta þannig fram að það sé einhver afsökun fyrir stöðunni í dag að verr hafi verið gert áður. Það er örugglega rétt, ég hef ekki kannað það. Veruleikinn á Íslandi í dag er þessi og skyldur stjórnvalda lúta að því að bregðast við honum. Það er enginn annar ábyrgur fyrir því en þau sjálf.