140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það gæti nú verið að einhverja ábyrgð bæru líka þau stjórnvöld sem komu Íslandi (Gripið fram í.) í þá stöðu sem við erum að vinna okkur úr. Ég er ekki að gera lítið úr þeim vanda að 26.000 manns skuli vera á vanskilaskrá. Að sjálfsögðu ber að taka það alvarlega, enda hvað hefur verið gert? Hefur það ekki verið eitthvert umfangsmesta mál sem í gangi hefur verið undanfarin ár og Alþingi verið upptekið af því aftur og aftur að reyna að útfæra leiðir til þess að takast á við þennan skuldavanda?

En það er engu að síður athyglisvert að 16.000 manns voru á þessari skrá fyrir hrunið í hinu svokallaða góðæri. Viðbótin sem vissulega er 10.000 manns er þó lægri tala en sem nemur þeim sem nú eru í atvinnuleit. Þetta er lægri tala en var á miklu minna erfiðleikaskeiði á tíunda áratug síðustu aldar. Það eru staðreyndir.

Varðandi tekjuöflunarmálin aftur og þær álögur sem hv. þingmaður talaði um legg ég áherslu á að þetta frumvarp boðar mikil tímamót frá og með aðgerðunum 2009 og aftur frumvarpinu 2010 og aftur 2011 hvað það snertir að nú eru engar almennar skattahækkanir boðaðar á næsta ári. Það er ekki hreyft við tekjuskatti. Persónufrádráttur verður að fullu verðtryggður, sem þýðir raunskattalækkun á tekjulægstu hópana um næstu áramót. Það er ekki hreyft við óbeinum sköttum. Tryggingagjald verður lækkað og þar missir ríkið út 7,6 milljarða í tekjum. Hækkun kolefnisgjaldsins má kalla almenna hækkun, en því verður mætt að hluta með lægri hækkun bensíngjalds og olíugjalds en nemur verðlagi. Þannig að það er komið til móts við það með því.

Það sem meira er og hlýtur nú að gleðja hv. þingmann og jafnvel forseta og fleiri ágæta þingmenn hér inni — að gangi (Gripið fram í.) þessi sértæka tekjuöflun næsta árs í gegn er ekki gert ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætluninni að þurfi neinar frekari nýjar (Forseti hringir.) tekjuöflunaraðgerðir á árunum 2013–2015.