140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:54]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er einkennilegt að heyra hæstv. ráðherra ræða hér um tekjuöflun ríkissjóðs. Talandi um það að tryggingagjaldið lækki, sem ég fagna vissulega, allri þróun í þá áttina, á ríkissjóður ekkert þær tekjur. Tryggingagjaldinu er ætlað að standa undir atvinnuleysisbótum til þess fólks sem lendir í þeim aðstæðum. Það er vel ef við þurfum að greiða minna þangað inn. Ég bara fagna því, vissulega.

Ég vil segja almennt um þá þróun sem við horfum fram á, ef ekki er um að ræða einhverjar almennar skattbreytingar, að í þessu frumvarpi liggja engu að síður fyrir tilteknar hækkanir. Framreikningurinn á skattþrepunum í tekjuskattinum, krónutöluhækkanirnar, viðbótarlífeyrissparnaðurinn þar sem þarf að greiða meira í skatt o.s.frv. Þetta mun allt saman þýða að hinn venjulegi launamaður, sem vissulega fékk hluta af þessum 60 milljarða kr. víxli sem fjármálaráðherrann tók á sig fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda í tengslum við kjarasamningana síðastliðið sumar — það fer ákveðinn hluti krónutölunnar af launahækkuninni í þessi gjöld. Eftir að hæstv. fjármálaráðherra hefur tekið til baka helminginn af launahækkuninni í formi skatta kemur verðtryggingin til skjalanna á fullri ferð í tengslum við verðbólguna, þannig að allt saman étur þetta upp ábatann af því sem verið er að gera.

Í þessum veruleika verðum við að horfast í augu við þann vanda sem fólk glímir við dagsdaglega og við sjáum endurspeglast í þeirri ókyrrð, þeirri óánægju, sem birtist okkur hér síðast í gærkveldi. Við eigum að leggja saman í það að reyna að mæta þessu á þann veg sem við getum best náð saman um.