140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og nýkjörnum formanni fjárlaganefndar fyrir ræðuna og óska henni til hamingju með kjörið og vænti góðs samstarfs við hana ekki síður en við fráfarandi formann, Oddnýju Harðardóttur, sem leysti starf sitt af hendi með sóma. Mér finnst ánægjulegt að vinna ár eftir ár með konum sem formönnum fjárlaganefndar, ef ég má láta það eftir mér að segja það — ekki það að karlarnir hafi ekki verið ágætir upp til hópa sem hafa verið í þeim störfum áður. (Gripið fram í: Algjörlega …)

Ég þakka hv. þingmanni líka fyrir að nefna eitt viðfangsefni sérstaklega sem eru skuldastýringarmál. Það er hárrétt sem fram kom í máli formanns fjárlaganefndar að það er stóraukið og mikið verkefni sem hefur vaxandi vægi í ríkisbúskap okkar hvernig til tekst með að forvalta og stýra skuldunum og reyna að ná niður kostnaði í því sambandi eins og nokkur kostur er. Það er verkefni sem menn höfðu kannski ekki gefið mikinn gaum að hér á árum áður, enda var það þá ekki jafnstórt og eðlilega með miklu minni skuldum en við þurfum nú að takast á við. Ráðuneytið hefur reynt að leggja í þetta umtalsverða vinnu, við höfum keypt allmikla erlenda sérfræðiráðgjöf. Það gerðum við á síðasta ári og fengum skýrslu frá virtu fyrirtæki sem vann með okkur á því sviði. Við höfum sömuleiðis byggt upp þekkingu í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á þessu máli og fengið ráðgjöf þaðan. Við höfum eflt starfsmannahaldið í ráðuneytinu til að takast sérstaklega á við verkefnið og einn sérfræðingur hefur það nú sem aðalstarf. Eðli málsins samkvæmt er það síðan unnið náið með Seðlabankanum hvað varðar útgáfumálin, mótun útgáfuáætlunar og annað í þeim dúr.

Þau tímamót urðu í byrjun þessa árs að í fyrsta skipti gaf ríkið út formlega vandaða útgáfuáætlun með markmiðum og vinnur nú samkvæmt henni. Hún er uppfærð reglulega og verður sá háttur hafður á hér eftir að fyrir liggur útgáfuáætlun með markmiðum til að upplýsa (Forseti hringir.) og þjónusta markaðsaðila og líka til að sýna áherslur ríkisins í þessum efnum.