140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það var full samstaða um málið í fjárlaganefnd, að honum sem fulltrúa Framsóknarflokksins undanskildum. Fjárlaganefnd var sammála um að fara þessa leið því að hún væri líklegri til að byggja á þarfagreiningu, gegnsæi í úthlutun og eftirliti með úthlutuðu fé úr ríkissjóði. Það var unnið í mikilli samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga. Reglurnar um úthlutun fyrir ráðuneyti verða á netinu hjá Alþingi, island.is og ráðuneytunum, og úthlutun í sveitarfélögunum mun fara fram á vettvangi menningarsamninga. Ég tek því undir það sem kemur fram í því áliti sem ég stóð að ásamt öðrum í fjárlaganefnd að það sé mun skilvirkari og í raun sanngjarnari leið til að úthluta styrkjum, fyrir utan það að það mun auka gæði úthlutana og eftirlit með þeim.

Þá komum við að aga í ríkisfjármálum en þar deilum við hv. þm. Höskuldur Þórhallsson algjörlega skoðun. Hluti af því að efla agann í ríkisfjármálum er að efla það rými sem fjárlaganefnd hefur til eftirlits með framkvæmd fjárlaga og ýmissa annarra mála sem varða fjárumsýslu ríkisins sem og að taka að eigin frumkvæði upp mál til skoðunar til að fara ofan í saumana á því að örugglega séu viðhafðir bestu starfshættir og réttar reglur við meðhöndlun ríkisfjármuna.