140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aftur um frumjöfnuð og heildarjöfnuð sem ég held að við skiljum öll og þurfum ekki að fræða hvert annað um það. En tökum aftur frumjöfnuðinn, hann var neikvæður um 100 milljarða 2009. Hann er góður mælikvarði m.a. vegna þess að utan hans standa óreglulegir liðir sem geta hlaupið á talsverðum fjárhæðum milli ára. Ef við skoðum undirliggjandi rekstur ríkisins er frumjöfnuðurinn góður mælikvarði. Hann verður jákvæður á rekstrargrunni um nokkra milljarða í ár og fjárlagafrumvarpið gengur út á að hann verði jákvæður um tæpa 40 milljarða á næsta ári.

Ef frumjöfnuðurinn fer út því að vera neikvæður um 100 milljarða 2009 í að verða jákvæður um 40 milljarða 2012 getur enginn horft fram hjá því að það er risavaxin framför, þ.e. sú þróun að okkur vanti 100 milljarða á að endar í nái saman yfir í að nú sé 40 milljarða afgangur í rekstri. Ef hv. þingmaður vill nota heildarjöfnuðinn getum við gert það en inni í honum koma töp og tilfallandi færslur, eins og framlag til Íbúðalánasjóðs í fyrra eða gjaldþrot Seðlabankans 2008 upp á 192 milljarða.

Tökum heildarjöfnuðinn samt sem áður. Árið 2008 var rekstur ríkisins öfugur um 216 milljarða. En frumvarpið gerir ráð fyrir því að hallinn á næsta ári verði 17,7 milljarðar. Þá hlýtur hv. þingmaður að viðurkenna að við erum komin langa leið. Það er allt annað að glíma við tölur af þeirri stærðargráðu og spurninguna um hvenær það klárast nákvæmlega en að standa frammi fyrir hundraða milljarða halla sem setur lítinn ríkissjóð eins og okkar hratt á hausinn.

Þessi árangur er því að nást og um það á ekki að þurfa að deila þó að vissulega sé munur á staðreyndum í ríkisreikningi annars vegar og áætlaðri útkomu þessa árs eða áætlun miðað við fjárlagafrumvarp næsta árs.