140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt maður noti orðin „faglegri vinnubrögð“ og tyggi það í sífellu úr ræðustól Alþingis rökstyður það ekki að það verði svo. Ég hef ítrekað bent á að það er á endanum fólk sem tekur ákvarðanir sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar ættu að taka. Það er fólk í þessum sjóðum, það er fólk í þessum ráðuneytum. Það er fólk sem útdeilir úr menningarsamningunum.

Það má efla faglegan þátt Alþingis og ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um það. Það hefur hins vegar ekki verið stigið neitt skref í þá átt að gera vinnubrögð fjárlaganefndar faglegri.

Ég fékk svar frá hv. ríkisendurskoðanda fyrir stuttu síðan þar sem í ljós kemur að formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa verið á launum hjá framkvæmdarvaldinu við að leggja grunninn að fjárlagafrumvarpinu. Það er grafalvarlegt. Hverjir sjá svo um eftirlit með þeirri vinnu sem fara á fram innan framkvæmdarvaldsins? Er það ekki löggjafarvaldið? Er það ekki rétt? Þetta eru staðfestar upplýsingar frá Ríkisendurskoðun. Eru það ekki hlutir sem við eigum að vinna að í fjárlaganefnd Alþingis í staðinn fyrir að færa valdið sem Alþingi hefur til framkvæmdarvaldsins, til einhverra aðila úti í bæ sem enginn veit hverjir eru?

Það hefur tíðkast á Íslandi að aðilar innan stjórnkerfisins hafa (Forseti hringir.) svo haft eftirlit með sjálfum sér. Við eigum að vera sammála um að því ættum við að breyta.