140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og nýskipaður formaður fjárlaganefndar höfum setið saman í fjárlaganefnd í allnokkurn tíma. Ég sendi þetta bréf fyrir rúmu ári síðan með vitund og vilja fjárlaganefndar og með fullu samþykki þáverandi formanns fjárlaganefndar, hæstv. núverandi ráðherra Guðbjarts Hannessonar.

Einu ári og einhverjum mánuðum síðar svaraði ríkisendurskoðandi mér og sagði að greidd hefðu verið laun fyrir vinnu formanns og varaformanns fjárlaganefndar í einhvers konar nefnd sem skipuð var af ráðuneytinu. Það er grafalvarlegt vegna þess að formaður og varaformaður fjárlaganefndar eiga fyrst og fremst að sjá um að endurskoða og fara yfir þau fjárlög sem lögð eru fram af fjármálaráðuneytinu. Ég var að vonast til þess að þingmenn hefðu almennt þá skoðun á málinu að menn ættu ekki að endurskoða sjálfa sig og hafa eftirlit með sjálfum sér, það væri vandi þessa stjórnkerfis sem þarfnast svo sárlega breytinga.

Svo komum við aftur að safnliðunum. Hv. þingmaður fjallar um lögbundna sjóði. Gott og vel. Þar eru menningarsamningar sem við höfum sett fjármuni í. Í dag er það lögbundið að alþingismenn, lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga að deila út safnliðum. Því var lýst hér áðan að það væri sparðatíningur og ætti með einum (Forseti hringir.) eða öðrum hætti að minnka þá vinnu. Ég tel það ekki eftir mér að útdeila þessum fjármunum frekar en öðru (Forseti hringir.) í þessu fjárlagafrumvarpi sem mér ber lögum samkvæmt að útdeila.