140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í grundvallaratriðum ósammála því að okkur sé eiginlega samboðið að ræða það að íslenska ríkið ætli ekki að axla skyldur sínar og greiða skuldir sínar til baka. Við erum sem betur fer ekki vanþróað land í erfiðleikum af því tagi sem almennt er viðurkennt að geti kallað á að gripið sé til slíkra ráða að menn fari í Parísarklúbbinn eða fái jafnvel sérstaka aðstoð í gegnum „high pack“ lán og annað í þeim dúr. Það er staður sem Ísland ætlar sér ekki að vera á sem þróað, vestrænt og öflugt ríki ríkt að auðlindum og mannauði sem hefur alla burði til að fara út úr þessu. Það er engin slík nauð orðin á okkar landi að við eigum að mínu mati að ræða slíkt og ég mundi seint sætta mig við uppgjöf, verð ég að segja, og er að því leyti til finnskur í eðli mínu sem eru þekktir meðal þjóðanna fyrir að hafa þrátt fyrir miklar þrengingar í sögu sinni alltaf verið skilvísir og staðið við sitt. Þannig tel ég að við Íslendingar eigum að temja okkur að vera.

Við þurfum líka að hyggja að orðspori okkar og þeim skaða sem á því varð í hruninu. Það mundi ekki bæta úr skák ef við færum að biðja um skuldaeftirgjöf þegar ljóst er og sýnt að við getum farið í gegnum þessa erfiðleika og unnið okkur út úr þeim auk þess sem, eins og ég benti á áðan, sú skuldaeftirgjöf yrði að mestu leyti hjá okkur sjálfum, hjá aðilum innan hagkerfisins. Skuldasamsetningin er sýnd á bls. 75 í ríkisfjármálaskýrslunni, óverðtryggðar innlendar skuldir eru 51%, verðtryggðar 22% og erlendar 27%. Þetta segir sína sögu um það hvaðan slík eftirgjöf ætti að koma í hagkerfinu. Og hverjir eiga lífeyrissjóðina okkar og stærstu aðilana sem ríkið hefur sótt fjármagn til? Jú, það erum við sjálf og það gengur ekki að stilla þessu upp eins og dæmi þar sem vanþróuð ríki hafa þurft að leita til alþjóðasamfélagsins og erlendra lánardrottna um (Forseti hringir.) niðurfellingar á skuldum. Ég sé heldur ekki að sagan sýni að það hafi verið sérstaklega eftirsóknarvert hlutskipti ef við hugsum til dæmis til þeirra landa (Forseti hringir.) Mið- og Suður-Ameríku sem hafa gengið í gegnum (Forseti hringir.) slíkt.