140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:59]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þau þróuðu ríki sem hafa lent í slíkum skuldahremmingum sem Ísland hefur lent í eru núna nýverið Grikkland, Portúgal, Ítalía og Spánn. Það er talað um að afskrifa um helming af skuldum Grikkja. Evrópski seðlabankinn er að setja á stofn risastóran björgunarsjóð til að bjarga hinum. Það er þekkt aðferð sem Bandaríkjamenn hafa beitt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að láta verðbólgu éta upp skuldir ríkissjóðs og þeir eru að því núna. Efnahagsstefna bandaríska ríkisins í dag er að láta verðbólgu éta upp skuldir ríkisins.

Þetta er enginn álitshnekkir, þetta er viðurkennd staða sem alþjóðasamfélagið veit að það verður að taka á. Það þýðir ekki að fara alltaf með umræðuna í þau gamalkunnu hjólför að við lendum í Parísarklúbbnum og verðum eins og fátækt ríki í Afríku. Umræðan sem hefur verið í þingsölum um Parísarklúbbinn ber oftast keim af því að menn hafa einfaldlega ekki hugmynd um hvað Parísarklúbburinn er og það er ekkert sem segir að Ísland verði meðlimur í þessum svokallaða Parísarklúbbi þó að menn lendi í skuldavandræðum. Parísarklúbburinn er upprunalega settur á stofn af þeim ríkjum sem skulduðu Afríkuríkjum til að þau gætu gægst yfir öxlina hvert á öðru og passað upp á að hinir aðilarnir gæfu ekki eftir minni skuldir. Það er það sem var í gangi, skuldunautarnir voru að passa hver upp á annan og komu þessum svokallaða Parísarklúbbi á laggir.

Hvað Finna varðar greiddu þeir upp allar stríðsskuldir sínar til Sovétríkjanna sem gerði það að verkum að Finnland varð vanþróaðasta ríki á Norðurlöndum í 40 ár og Finnland fór líka í gegnum mikla kreppu þegar Sovétríkin liðu undir lok sem þeir eru ekki enn komnir út úr. Hún skaðaði samfélagið það mikið, allar endurgreiðslurnar á þeim skuldum, að Finnar biðu óbætanlegt tjón og við viljum ekki fara þá leið með Ísland.